Kostnaður við byggingu álþynnuverksmiðju 4 til 5 milljarðar
-Helguvík einn af þremur mögulegum byggingarstöðum á Íslandi.
Á dögunum voru fulltrúar japönsku fyrirtækjanna Japan Capacitor Industrial og Nippon Light Metal hér á landi að skoða hugsanlega staði fyrir álþynnuverksmiðju sem fyrirtækin hafa áform um að reisa í sameiningu. Meðal þeirra staða sem fulltrúar fyrirtækjanna skoðuðu var Helguvík, en einnig var skoðuð aðstaða í Straumsvík og Rangárvöllum við Akureyri.
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta mun ákvörðun fyrirtækjanna liggja fyrir um áramót, en einnig er verið að skoða möguleika á byggingu verksmiðjunnar í Kína.
Talið er að stofnkostnaður við að reisa verksmiðju af þessu tagi sé fjórir til fimm milljarðar og er orkuþörf miðað við full afköst um 45 MW. Undir starfsemina þyrfti 60 þúsund fermetra lóð og er talið að við verksmiðjuna muni starfa á milli 50 til 60 manns.
Álþynnur sem framleiddar eru í slíkri verksmiðju eru notaðar í svokallaða rafeindaþétta sem eru í öllum rafmagnsvörum. Álþynnurnar eru svipaðar viðkomu og álpappír, en nokkuð þykkari og verða þær fluttar úr landi til Kína eða Japan til frekari vinnslu verði af áformum um byggingu slíkrar verksmiðju hér á landi.
VF-ljósmynd: Frá framkvæmdum í Helguvík.