Kostar aukalega 140 milljónir króna á ári að stytta vinnuvikuna hjá Brunavörnum Suðurnesja
Stytting vinnuvikunnar mun kosta Brunavarnir Suðurnesja (BS) aukalega 140 milljónir króna á ári. Kostnaðurinn felst í launum og launakostnaði vegna nýrrar vaktar sem BS þarf að koma á fót fyrir 15. maí í vor þegar vinnutímastytting vaktavinnufólks tekur gildi. Þetta kemur fram í viðtali við Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja, í Víkurfréttum í dag.
Brunavarnir Suðurnesja standa núna í samningaviðræðum við Sjúkratryggingar um þetta. Í dag er starfsemi BS byggð upp á fjórum vöktum en vegna styttingar vinnuvikunnar þarf að bæta við einni vakt til viðbótar þar sem starfsemi BS þarf að vera órofin og ekki er hægt að taka hlé eða brjóta upp starfið vegna styttingarinnar.
„Auðvitað kemur þetta til með að hafa áhrif á reksturinn og þetta verður ekkert auðvelt. Þetta er rándýrt. Um 80% af kostnaði við rekstur Brunavarna Suðurnesja snýr að starfsmannakostnaði. Kostnaður Brunavarna Suðurnesja við styttingu vinnuvikunnar er um 140 milljónir króna á ári. Þetta er hrein viðbót við reksturinn og þýðir aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin og ríkið. Svo töluðu menn um að stytting vinnuvikunnar ætti ekki að kosta neitt. Þetta er gríðarlegur kostnaðarauki,“ segir Jón m.a. í viðtalinu.
Nýjustu Víkurfréttir má lesa hérna.