Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kosningabandalag Framsóknar og Samfylkingar í Reykjanesbæ: Skýrari kostir fyrir kjósendur
Fimmtudagur 27. október 2005 kl. 09:21

Kosningabandalag Framsóknar og Samfylkingar í Reykjanesbæ: Skýrari kostir fyrir kjósendur

Sterkar líkur eru á að Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn í Reykjanesbæ bjóði fram sameiginlegan lista í bæjarstjórnarkosningunum á næsta ári. Á næstu dögum er von á frekari fréttum af því hvort af kosningabandalaginu verði.

Þeir Guðbrandur Einarsson, Samfylkingu, og Kjartan Már Kjartansson, Framsóknarflokki, staðfestu í samtali við Víkurfréttir að viðræður hafi staðið yfir síðustu vikur. Báðir segja þeir störf viðræðunefndarinnar ganga vel og sé lítið um málefnaágreining á milli flokkanna.

„Við göngum til verks með opnum hug og setjum engin skilyrði fyrirfram,“ segir Guðbrandur. „Það hefur ekki verið ágreiningur á milli flokkanna undanfarið. Við höfum m.a. unnið að sameiginlegum bókunum í bæjarstjórn og fleira. Þó það sé einhver munur á okkur eru engin stór mál framundan sem ættu að stoppa málið.“

Guðbrandur sagði flokkana af sama meiði, með blöndu af félagslegum og frjálslyndum áherslum, og er afar bjartsýnn á framhaldið. Hann telur jafnframt að ekki sé útilokað að fleiri gætu komið að framboðinu, en nefndi þar enga sérstaka flokka eða hópa.

Kjartan sagði að sameiginlegt framboð hafi komið til tals á kjörtímabilinu og Samfylking hafi haft frumkvæði að formlegum viðræðum.
„Eftir að ljóst var að ekkert yrði af sameiningu sveitarfélaganna fórum við út í formlegar viðræður. Það hefði verið mjög óábyrgt af okkur að skoða ekki samstarf við Samfylkingu því niðurstaðan gæti orðið góð fyrir Framsóknarflokkinn.“

Hann er sammála Guðbrandi um að flokkarnir eigi vel saman og ættu að geta náð sátt um flest málefni. Helsti kosturinn við samstarf væri þó að þá fengju kjósendur skýra valkosti um stjórnarmynstur sem væri að vænta að kosningum loknum.

Ef viðræðunefndin nær jákvæðri niðurstöðu verður málinu vísað til fulltrúaráða flokkanna og er það þeirra að taka lokaákvörðun um málið.
Í þessu máli hafa ýmsar sögur komist á kreik um væntanlegt bæjarstjóraefni ef af bandalaginu verður. Hefur nafn Þórólfs Árnasonar, fyrrum borgarstjóra Reykjavíkur, verið nefnt í því samhengi, en Guðbrandur og Kjartan vilja gefa lítið fyrir þær sögur. Þeir segja að þrátt fyrir að ýmsir séu nefndir hafi engar viðræður átt sér stað. Þeir hyggist bíða með slíkt þar til að ákvörðun hafi verið tekin með framhaldið.

Hjá Sjálfstæðisflokki sem er með hreinan meirihluta verður tekin ákvörðun um hvort halda eigi prófkjör og þá hvenær. Aðilar innan flokks sem blaðið ræddi við töldu þó líklegt að prófkjör yrði á næstu vikum eða mánuðum. Það yrði þó ekki „opið“ eins og síðast heldur einungis fyrir flokksbundna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024