Kosið um sameiningu Garðs og Sandgerðis 11. nóvember
Kosið verður um sameiningu Sandgerðis og Sveitarfélagsins Garðs þann 11. nóvember nk. Bæjarstjórnir Sandgerðis og Sveitarfélagsins Garðs hafa samþykkt að gengið verði til kosninga en síðari umræða um sameiningu sveitarfélaga fór fram í dag í bæjarstjórnum beggja sveitarfélaganna.
„Bæjarstjórnir sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar samþykktu þann 7. júní 2017 að skipa samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna, samkvæmt 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Samstarfsnefnd hefur skilað áliti sínu til bæjarstjórnanna með skilabréfi og greinargerð um störf nefndarinnar dags. 17. ágúst 2017. Greinargerðinni fylgja eftirtalin gögn: Skýrsla KPMG; Sameining sveitarfélaga, sviðsmyndir um mögulega framtíðarskipan sveitarfélaganna. Tillaga um atkvæðaseðil vegna atkvæðagreiðslu íbúanna um tillögu um sameiningu sveitarfélaganna. Drög að auglýsingu í Lögbirtingarblaði og fjölmiðlum um atkvæðagreiðsluna.
Samstarfsnefnd leggur til að atkvæðagreiðsla meðal íbúa um tillögu um sameiningu sveitarfélaganna fari fram laugardaginn 11. nóvember 2017. Kynning á tillögunni byggi á efni framangreindrar skýrslu KPMG.
Samstarfsnefndin kom saman á fjórum bókuðum fundum og hafa fundargerðir nefndarinnar komið til umfjöllunar í bæjarráðum sveitarfélaganna,“ segir í bókun í fundargerð bæjarstjórnanna sem samþykkt var í dag.