Kosið um nýtt nafn á Garð og Sandgerði fyrir páska
Nafnanefnd fyrir sameinað sveitarfélag Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs sendi alls tíu nöfn til umsagnar Örnefnanefndar en alls bárust 392 tillögur að nýju nafni á sameinað sveitarfélag. Örnefnanefnd hefur umsagnarfrest til annarar viku mars , en áætlað er að atkvæðagreiðsla fari fram fyrir páska.
Hægt var að senda inn tillögur rafrænt, eða afhenda í ráðhúsum sveitarfélaganna. Sérstaklega var óskað eftir tillögum frá nemendum grunnskólanna í Sandgerði og Garði. Alls bárust 392 tillögur, sem var framar vonum.
„Tillögurnar voru fjölbreyttar og skemmtilegar. Úr grunnskólunum komu nokkrar mjög skemmtilegar, eins og Frábær,“ segir á vef Sveitarfélagsins Garðs.
Við yfirferð tillagna hafði nafnanefndin leiðbeiningar Örnefnanefndar til hliðsjónar, enda þarf sú nefnd að veita jákvæða umsögn um þær tillögur sem koma til álita í atkvæðagreiðslu.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum og leiðbeiningum Örnefnanefndar skal nafnið samrýmast íslenskri málfræði og málvenju. Æskilegt er að nafn sveitarfélagsins beri með sér að um stjórnsýslueininguna sveitarfélag sé að ræða, þ.e. að heiti sveitarfélaganna endi til dæmis á -hreppur, -bær, - kaupstaður, -byggð, -þing eða beri forskeytið Sveitarfélagið.
Nafnið skal tengjast viðkomandi svæði sérstaklega. Ef nafn tengist einnig svæði sem ekki tilheyrir viðkomandi sveitarfélagi er gerð krafa um að viðkomandi sveitarfélag nái yfir meiri hluta þess svæðis sem nafnið tengist og að meiri hluti íbúa svæðisins búi í því sveitarfélagi. Jafnframt liggi fyrir að önnur sveitarfélög á svæðinu sem kunna að tengjast nafninu mótmæli því ekki sérstaklega að nafnið verði notað af sveitarfélaginu.
Nefndin var sammála um að nöfn sem vísa í núverandi nöfn sveitarfélaganna, eða eldri heiti þeirra komi ekki til álita. Æskilegt sé að nýtt sveitarfélag taki nýtt nafn, en heitin Sandgerði og Garður verði áfram nýtt um hvorn byggðakjarna.