Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Körfuknattleiksfólk fær þrekæfingatæki frá Keili
Þriðjudagur 25. nóvember 2008 kl. 10:10

Körfuknattleiksfólk fær þrekæfingatæki frá Keili




Keilir afhenti í síðustu viku körfuknattleiksdeild Keflavíkur nokkur æfingatæki sem komið hefur verið fyrir í þrektækjasal körfuknattleiksdeildarinnar í íþróttahúsinu í Keflavík. Tækin eru tilkomin vegna endurnýjunar á tækjasal Íþróttaakademíunnar, þar sem keypt voru æfingatæki sem nýtast sérstaklega sem kennslutæki við íþróttafræði og ÍAK einkaþjálfaranámið sem hefur notið gríðarlegra vinsælda og er orðið leiðandi nám í einkaþjálfun á Íslandi í dag. Námið er einstakt að því leitinu til að kennd er einstaklingsmiðuð þjálfun og styðja nýju tækin vel við þá fræði. Nú eru 63 ÍAK einkaþjálfaranemar við Keili og nýr nemendahópur verður tekinn inn um áramót.

Tækin sem nú hafa verið afhent körfuknattleiksdeild Keflavíkur þóttu ekki henta náminu við akademíuna. Tækin voru því komin í geymslur og engum til gagns þar. Þau þóttu ekki henta til endurhæfingar, en aðilum eins og Þroskahjálp á Suðurnesjum og heilsustofnunum voru boðin tækin áður en ákvörðun var tekin um að láta þau til körfuknattleiksdeildarinnar. Þar munu þau hins vegar nýtast vel til styrktarþjálfunar.

Mynd: Frá afhendingu tækjanna til körfuknattleiksdeildar Keflavíkur. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024