Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur svarar fyrir Fannar
Þriðjudagur 23. mars 2004 kl. 15:55

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur svarar fyrir Fannar

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur sent frá sér yfirlýsingu á heimasíðu félagsins þar sem DV er harðlega fordæmt fyrir frétt í blaðinu í morgun þar sem greint er frá meintu kynferðisbroti Fannars Ólafssonar leikmanns í körfuknattleiksliði Keflavíkur. Yfirlýsingin sem ber fyrirsögnina „Fannar hafður fyrir rangri sök – vinnubrögð DV fordæmd“ fer hér á eftir:

Fannar hafður fyrir rangri sök - vinnubrögð DV fordæmd
Í sorpblaðinu DV í dag er greint frá meintu kynferðisbroti Fannars Ólafssonar. Um er að ræða ásakanir stúlku sem var vistmaður á meðferðarheimilinu að Torfastöðum, en það er rekið af foreldrum Fannars. Þar eru vistaðir unglingar sem átt hafa erfitt uppdráttar í lífinu af ýmsum sökum.

Vegna greinar þessarar vill körfuknattleiksdeildin taka fram að ásakanir þær sem settar hafa verið fram á hendur Fannari eru skv. okkar heimildum algerlega úr lausu lofti gripnar.

Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar fordæmir vinnubrögð DV harðlega og vill ekkert með þann fjölmiðil hafa að gera. DV er alveg sama um tilfinningar fólks og birtir óhikað myndir og nefnir nöfn fólks sem hefur verið ásakað, jafnvel þó það sé eða geti verið alsaklaust. Þess ber að geta að Fannar hefur ekki verið kærður, heldur er málið á rannsóknarstigi. Vinnubrögð DV eru afar ósmekkleg og lýsa mikilli mannvonsku og tillitsleysi. Hreint ótrúlegt að Illugi Jökulsson skuli standa á bak við svona lagað.

Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar vill biðja stuðningsmenn Keflavíkur að standa þétt að baki Fannari, eftir sem áður, í þeirri trú og vissu að hér sé um algerlega staðhæfulausar ásakanir að ræða. Nú er úrslitakeppnin í körfubolta og framundan hörkuleikir gegn Grindavík, vonandi fá þeir leikir að vera í aðalhlutverki.

Vonandi breytir DV um stefnu í bráð eða verður gjaldþrota. Stjórn körfuknattleiksdeildar skorar á stuðningsmenn sína að kaupa ekki þennan sorapóst og veita ekki viðtöl, nema ýtrustu nauðsyn krefji.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024