Koppalogn í Reykjanesbæ
Í dag hefur verið unnið að því að fylla í holur á helstu umferðaræðum í Reykjanesbæ. Vegfarandi sem var í sambandi við Víkurfréttir komst skemmtilega að orði, þegar hann kallaði framkvæmdir dagsins við holufyllingar „koppalogn“.
Ástæðuna fyrir nafngiftinni má rekja til þess að margar djúpar holur í gatnakerfinu hafa kostað það að hjólkoppar hafa skotist af felgum og liggja þeir víða mölbrotnir og skemmdir. Þá hafa ökumenn reyndar margir skemmt bæði dekk og felgur í dúpum holunum.
Veturinn hefur verið erfiður með holurnar að gera. Þær hafa myndast aftur og aftur og oft á sömu stöðunum. Víkurfréttir rannsaka holur í blaðinu á fimmtudaginn og leita svara við ástandi gatnakerfisins.
Myndir úr umferðinni á Suðurnesjum í dag. Koppar og holur um allan bæ. Holunum hefur reyndar fækkað mikið, en ástand Hafnargötunnar er ljótt, eins og sjá má.