Koparstrengjum fyrir milljónir stolið í Reykjanesbæ
Tveimur keflum með koparstrengjum var stolið af athafnasvæði hjá HS Veitum í Reykjanesbæ í febrúar. Þjófnaðurinn uppgötvaðist þann 22. febrúar sl. en gæti hafa átt sér stað á þriggja vikna tímabili þar á undan.
Koparkeflin vega um 800 kíló og hvort um sig kostar 2,8 milljónir króna í innkaupum, þannig að verðmæti þeirra er 5,6 milljónir króna.
Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins.