Konráð læknir dró þjóðfánann að húni - stemmning í skrúðgarðinum í Keflavík
Konráð Lúðvíksson, læknir í Keflavík dró þjóðfánann að húni við setningu 17. júní hátíðarhaldanna í Reykjanesbæ í dag. Það þykir mikill heiður að fá þetta hlutverk á þjóðhátíðardeginum og Konráð er vel að honum kominn eftir nærri þriggja áratuga þjónustu við Suðurnesjamenn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Það var vel við hæfi að Konráð gat litið yfir á vinnustaðinn sinn um leið og hann dró stærsta fána landsins að húni en sjúkrahúsið er næsta hús við skrúðgarðinn í Keflavík. Árni Sigfússon, bæjarstjóri var lækninum til halds og trausts við athöfnina.
Hundruð bæjarbúa var kominn í skrúðgarðinn til að fagna þessum degi í blíðskaparveðri og að lokinni fánahyllingu setti Árni Sigfússon athöfnina. Hann barði bæjarbúum í brjóst og hvatti menn til bjartsýni á erfiðum tímum og sagði framtíðina bjarta í Reykjanesbæ. Tækifærin væru óvíða meiri og hér gætu bæjarbúa því horft fram á veginn.
Elín Óla Klemensdóttir var fjallkonan að þessu sinni og hún flutti ljóð eftir afa sinn. Hjördís Kristinsdóttir flutti ræðu dagsins og varð tíðrætt um ástandið, stofnun Velferðasjóðs Suðurnesja og sagði að bæjarbúar, fyrirtæki og félög á svæðinu hefðu stutt rækilega við bakið á sjóðnum en 22 milljónir hafa safnast frá því hann var stofnaður, rétt eftir kreppu.
Skemmtidagskrá var í höndum íþróttafélaganna, Keflavíkur og Njarðvíkur og náði hápunkti fyrir börninn með heimsókn Sollu striðu úr Latabæ.
Konráð Lúðvíksson og Árni Sigfússon á efstu myndinni með fánann stóra fyrir framan sig. Á næstu mynd má sjá lækninn hugsi um það leyti sem skátarnir koma með fánann. Það er margra manna verk að halda á fánanum stóra en skátarnir fóru vel með hlutverkið og halda uppi virðingu þessarar athafnar á hverju ári.
Karlakór Keflavíkur á sviðinu. Hann er jafnan mættur við svona tilefni og fastur punktur í þeirri tilveru.
Fjallkonan, Elín Óla Klemendóttir flutti ljóð eftir afa sinn.
Hin fjögurra ára Jana Falsdóttir var í glæsilegum upphlut úr eigu fjölskyldu sinnar til langs tíma. Glæsileg stúlka á 17. júní.
Almar Orri Jónsson var líka flottur við tjörnina með Íslandsblöðru í kerrunni sinni.
Gróðurinn skartaði sínu fegursta í blíðunn í skrúðgarðinum í dag. Fleiri myndir koma í ljósmyndasafn VF á morgun. VF-myndir/pket.