Könnun: Sjálfstæðismenn stærstir í Suðurkjördæmi
Sjálfstæðisflokkurinn bætir við fylgi sitt í Suðurkjördæmi samkvæmt könnun sem RÚV birti í gær, en fylgi við flokkinn mælist nú 40%.
Verði það úrslitin bæta þeir við sig manni og eru með 4 kjördæmakjörna þingmenn sem þýðir að Björk Guðjónsdóttir úr Reykjanesbæ er inni á þingi.
Samfylking er með rúm 24% og tapar 6% frá síðustu kosningum en bætir í frá síðustu könnun. Þeir fá með þessu 2 kjördæmakjörna þingmenn, en voru með 4 menn í kosningunum.
Vinstri Grænir margfalda fylgi sitt úr síðustu kosningum og eru með 17,4% og tvo þingmenn, en höfðu engan mann í síðustu kosningum.
Framsókn hríðfellur í fylgi og hefur 12,3%, þannig að Guðni Ágústsson verður einn þingmanna úr þeim ranni. Sú útkoma er þó mun hagstæðari en í öðrum landshlutum.
Frjálslyndir og Íslandshreyfingin koma ekki inn kjördæmaþingmanni samkvæmt könnuninni þar sem F er með 5% og Í er með 1,4%.
Oddvitar listanna mættust í kappræðum í beinni útsendingu á Rás2 í gær og snerist mál þeirra að mestu um umhverfis- og virkjunamál sem og atvinnu- og samgöngumál.
Samkvæmt könnuninni töldu 41% kjósenda í kjördæminu að samgöngumál væru mikilvægasta mál kosninganna og 14% nefndu atvinnumál. 7% nefndu umhverfismál og jafn margir málefni aldraðra og öryrkja.
Fylgi flokkanna var einnig mælt með tilliti til búsetu innan kjördæmisins og er margt fróðlegt hægt að lesa úr þeim tölum.
Fylgi flokkanna er sem hér segir: D: 42,6% - S:26,2% - V: 14,2% - F: 8% - B: 7,7% - Í: 1,4%.
Það sem sérstaka athygli vekur er m.a. slæleg staða Framsóknar á Suðurnesjum þar sem flokkurinn mælist aðeins með 7,7% fylgi en líklegt er að Suðurnesjamenn hugsi til þess að litlar líkur eru á að sveitungi þeirra, Helga Sigrún Harðardóttir, sem er í 3. sæti þar, eigi möguleika á að komast inn á þing.
Þá er staða Vinstri Grænna afar sterk miðað við gengi flokksins í bæjarstjórnarkosningum í Reykjanesbæ á síðasta ári og má leiða líkum að því að þar spili umræðan um álver í Helguvík inn í.
Frjálslyndir virðast einnig eiga hljómgrunn hér Syðra, enda eru sjávarútvegsmál svæðinu mikilvæg, sérstaklega í Sandgerði, þaðan sem oddviti Frjálslynda, Grétar Mar Jónsson, kemur, og Grindavík, einum stærsta útgerðarbæ landsins.
VF-myndir/Þorgils: Frá útsendingu Rásar 2. Mynd 1:Oddvitar flokkanna í kjördæminu, Óskar Þór Karlsson, leysti Grétar Mar af á fundinum.