Kona slasaðist þegar bíll valt á Grindavíkurvegi í hálku
Ung kona slasaðist lítillega þegar bill hennar sem hún var farþegi í valt á Grindavíkurvegi um klukkan hálf tvö. Karlmaður sem var bílstjóri slasaðist ekki. Klippa þurfti konuna út úr bílnum og kvartaði hún undan eymslum í baki og hálsi.
Ökumaður bílsins sem var amerískur fólksbíll var að taka framúr þegar hann missti stjórn á honum í hálku með þeim afleiðingum að hann fór útaf veginum vinstra megin en fólkið var á leiðinni frá Grindavík. Lenti bifreiðin á hraunhellu og flaug við það nokkra metra og valt. Fólkið var í bílbelt en þakið beyglaðist það mikið farþegamegin að konan komst ekki út úr bílnum. Því þurfti að nota klippur til að koma henni út. Öflugar klippur Brunavarna Suðurnesja voru notaðar til að klippa þakið af bílnum og tók það skamma stund.
Bílstjórar tveggja 22 hjóla flutningabíla voru á eftir bifreið fólksins og komu þau þeim til hjálpar strax eftir óhappið og aðstoðuðu svo slökkviliðsmenn og lögreglu á vettvangi.
Konan var send á slysadeild þar sem meiðsli hennar verða skoðuð. Bíllinn er ónýtur eftir veltuna og klipperí.
--
---
---
---
---