Kona alvarlega slösuð eftir ofsaakstur síbrotamanns
Tvær bifreiðar skullu saman í mjög hörðum árekstri á Sandgerðisvegi síðasta laugardag. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar reyndist undir áhrifum fíkniefna, var án ökuréttinda og á stolnum bíl. Kona liggur alvarlega slösuð eftir óhappið.
Ökumaður Subaru bifreiðar ók á miklum hraða þegar lögreglubifreið elti hann á leið til Sandgerðis og reyndi að stöðva með þeim afleiðingum að hann ók framan á Hyundai bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Í henni voru tvær konur og slasaðist farþeginn þar mjög alvarlega. Nota þurfti klippur til að ná þeim út og voru þær fluttar á Landspítalann. Farþeginn liggur þar nú. Tók nokkurn tíma að ná konunum úr bílnum og var Sandgerðisvegi lokað í tvær, þrjár klukkustundir. Ökumaðurinn sem var valdur að slysinu slapp án teljandi meiðsla.
Lögreglan sendi frá sér tilkynningu á mánudag þar sem fram kemur að maðurinn, sem er á þrítugsaldri, sæti nú síbrotagæslu. Lögreglumennirnir sem veittu eftirförina höfðu dregið verulega úr hraða lögreglubifreiðarinnar áður en slysið varð.
Ökumaðurinn sem lögreglan veitti eftirför ók á þessum stolna Subaru bíl. Langan tíma tók að ná konunum út úr hinum bílnum sem var af gerðinni Hyundai i30.