Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Komu í veg fyrir ofþornun landsliðsþjálfarans
Sunnudagur 17. desember 2017 kl. 14:21

Komu í veg fyrir ofþornun landsliðsþjálfarans

Starfsmenn ISAVIA hafa síðustu klukkustundir liðsinnt þúsundum flugfarþega sem eru strandaglópar á Keflavíkurflugvelli eftir að verkfall brast á í morgun hjá flugvirkjum Icelandair. Meðal þess sem starfsmenn flugvallarnis hafa gert er að dreifa vatni á meðal farþeganna til að koma í veg fyrir ofþornun þar sem fólkið stendur tímunum saman í röð í brottfararsal flugstöðvarinnar.
 
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, er meðal þeirra sem fengu vatnsflösku frá bráðaliðum flugvallarslökkviliðsins. Heimir er í röðinni og bíður þess að fá breytingu á ferðatilhögun sinni. Bráðaliði sem Víkurfréttir ræddu við sagði alltaf hættu á ofþornun þar sem fólk stendur lengi í aðstæðum eins og þeim sem mynduðust í flugstöðinni í morgun.
 
Röðin, sem hlykkjast um allan brottfararsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, virðist ganga hægt. Ástæðan er að afgreiðsla og breytingar á ferðatilhögun tekur langan tíma fyrir hvern og einn farþega.
 
Myndirnar með fréttinni voru teknar í hádeginu í dag. VF-myndir: Hilmar Bragi

 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024