Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Komst út úr sökkvandi bíl á elleftu stundu
Föstudagur 3. júní 2005 kl. 20:21

Komst út úr sökkvandi bíl á elleftu stundu

Ökumaður Toyota Avensis bifreiðar náði að komast út úr bifreiðinni og synda til lands eftir að bíllinn hafnaði í höfninni í Keflavík undir kvöld. Bifreiðin fór yfir háan steyptan kant á bryggjunni og flaut út í höfnina um 30 metra áður en hún sökk til botns. Kona sem var ein í bílnum náði að komast út úr bílnum skömmu áður en hann sökk og synda til lands. Sjónarvottar voru að slysinu og létu þeir neyðarlínuna vita.

Konan var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en henni var nokkuð brugðið eftir atvikið. Ekki er vitað hvað olli því að bifreiðin fór framaf bryggjunni og í sjóinn. Lögreglan vinnur að rannsókn.

Tómas Knútsson kafari var kallaður til og fór hann niður að bílnum til að tryggja að enginn annar hafi verið í bílnum. Svo reyndist ekki vera. Tómas notaði síðan trukk Bláa hersins til að hífa bifreiðina úr höfninni og gekk það verk vel með aðstoð vegfarenda.

Myndirnar: Bíllinn hífður á land á efri myndinni. Á þeirri neðri skoðar lögreglan þann stað þar sem bíllinn fór í sjóinn en bifreiðin sökk til botns við hliðina á bátnum á myndinni.

Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024