Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kominn með nóg af sjálfboðastarfinu
Tómas hefur fundið ýmislegt í hreinsunum Bláa hersins í gegnum tíðina. Þessi mynd var tekin árið 2008 þegar hann fann akkeri úr Jamestown en það hafði verið í sjónum í um 130 ár.
Laugardagur 10. september 2016 kl. 06:00

Kominn með nóg af sjálfboðastarfinu

- Blái herinn hættur starfsemi í þeirri mynd sem verið hefur

„Ég hef bara ekki orku í þetta lengur. Það er erfitt að fá sífellt nei þegar maður sækir um styrki,“ segir Tómas Knútsson hjá Bláa hernum en starfsemi hans hefur verið hætt í þeirri mynd sem verið hefur frá stofnun árið 1995. Tómas hefur skipulagt fjölda hreinsunarverkefna á vegum Bláa hersins í gegnum tíðina og í þeim hafa safnast yfir 1300 tonn af rusli, aðallega meðfram sjónum. Ýmsan tækjabúnað þarf til starfsins auk þess sem það er tímafrekt. Tómas hefur unnið í sjálfboðastarfi fyrir Bláa herinn og oft gengið erfiðlega að safna styrkjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Frá hreinsun í Selvogi á dögunum. Mynd/Sendiráð Bandaríkjanna

Tómas hefur verið ötull talsmaður umhverfisverndar og vakið athygli á því hve mikið rusl safnast fyrir í sjónum og við strendur landsins. Fyrir störf sín hefur hann hlotið margar viðurkenningar sem hann segir alltaf gott klapp á bakið en að þeim fylgi aldrei neinir fjármunir sem nauðsynlegir séu til að starf Bláa hersins geti haldið áfram. Tómas hefur þó ekki misst áhugann á umhverfisvernd og vonar að á næstunni bjóði áhugasamt fólk sig fram til að sitja í stjórn Bláa hersins. „Stjórnin gæti þá safnað styrkjum og ráðið mig á launum til að stýra hreinsunarverkefnum. Þá myndi ég beita mér jafn mikið og í gegnum tíðina.“ Hann kveðst líta stoltur yfir farinn veg og vonar að Blái herinn geti starfað áfram í breyttri mynd því hann vill áfram láta gott af sér leiða.

Vill að fleiri sýni málefninu áhuga
Um síðustu mánaðamót tók Blái herinn þátt í fjölmennu hreinsunarverkefni í Selvogi ásamt sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi, Landvernd og fleiri stofnunum og segir Tómas það hafa verið svanasöng Bláa hersins í upprunalegri mynd. „Hreinsun á rusli þarf að vera með öðrum hætti en að ég standi alltaf fyrir henni. Þetta er ekki einkamál mitt. Það þurfa miklu fleiri að sýna þessu brýna verkefni áhuga. Ef fólk almennt vill þetta mál ekki í forgang þá er ég ekki maðurinn til að vera alla daga að snapa peninga til að eiga fyrir bensíni og tryggingum. Ég gæti verið alla daga úti í náttúrunni með tíu manns og það sæi aldrei högg á vatni, svo mikið er af rusli hér.“

Tómas var næstum því búinn að gefast upp á harkinu fyrir tveimur til þremur árum en fékk þá óvæntan stuðning og ákvað því að halda áfram. Þá fór af stað verkefnið Our Ocean á vegum bandaríska ríkisins. Í góðu samstarfi Sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi og Bláa hersins hafa farið fram fjölmargar hreinsanir við strendur Íslands.

Fjölmenni kom saman í Selvogi um síðustu mánaðamót og hreinsaði rusl. Myndin var tekin í grillveislu á eftir. Mynd/Sendiráð Bandaríkjanna

Var kallaður blöðrubani
Á Ljósanótt í Reykjanesbæ um síðustu helgi var setningarathöfnin með öðrum hætti en áður því grunnskólabörn slepptu ekki blöðrum. Tómas minntist á það á Facebook fyrir tveimur árum að nær væri að gróðursetja tré en að sleppa blöðrunum. „Stundum þarf maður að taka við leiðindum í baráttunni fyrir náttúruna og ég var kallaður blöðrubani en það hefur engin áhrif á mig. Þetta snýst um samfélagslega ábyrgð og að vera ekki að senda út röng skilaboð til barnanna. Þessar blöðrur fóru beint út á haf og urðu að fóðri fyrir fiskinn sem seldur er sem hágæðavara.“

Umhverfissýningin Saman gegn sóun fer fram í Perlunni núna um helgina og þar mun Tómas sýna þar listaverk úr rusli.
 

[email protected]