Komin mynd á viðbyggingu sundmiðstöðvarinnar
Iðnaðarmenn eru nú í óðaönn við að klæða loftin á sundlaugasölunum og leggja sundlaugardúkinn í nýju innisundlauginni í Reykjanesbæ. Atafl (gömlu Keflavíkurverktakar) er byggingaraðili en Jón Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Atafli, segir verkið hafa gengið vel og illa.
„Utanhússvinnan er flókin á þessu húsi og veðrið hefur ekki verið okkur hliðhollt og valdið vandræðum í steypuvinnu,“ sagði Jón í samtali við Víkurfréttir. Innisundlaugin verður 50 m að lengd en þar verða einnig vaðlaugar o.fl. Nú þegar er sundlaugarkerfið, allt sem snýr að vatnsdælubúnaði og klórkerfinu tilbúið til notkunar. Atafl er á verktíma til 10. apríl.