Komið í veg fyrir meirihlutaslit í Grindavík - starfa saman til loka kjörtímabilsins
Bæjarfulltrúar B og S lista í Grindavík hafa sammælst um að halda samstarfi áfram út kjörtímabilið. Flokkarnir eru sammála um að ráða Maggý Hrönn Hermannsdóttur í starf skólastjóra Hópsskóla. Skólastarf mun hefjast í janúar 2010. Mun meirihlutinn vinna að undirbúningi skólastarfsins í samstarfi við fræðslu- og uppeldisnefnd, nýjan skólastjóra og foreldra barna í væntanlegum grunnskóla. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu á vef Grindavíkurbæjar sem fulltrúar Samfylkingar og Framsóknarflokks skrifa undir.
Þá segir að flokkarnir eru jafnframt sammála um að við ráðningar í störf hjá bæjarfélaginu verði farið eftir faglegri úttekt í framtíðinni. Það er sameiginleg niðurstaða að með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi sé brýnast að flokkarnir haldi samstarfi áfram og vinni saman að brautargengi margra mikilvægra mála sem eru í deiglunni hjá bæjaryfirvöldum.
„Því höfum við nú leyst úr öllum ágreiningi sem upp hefur komið og ætlum að vinna saman sem liðsheild að velferðarmálum okkar góða bæjarfélags“. Undir þetta rita Jóna Kristin Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi S-lista, Hörður Guðbrandsson, bæjarfulltrúi S-lista, Hulda Jóhannsdóttir, formaður Samfylkingarfélags Grindavíkur, Petrína Baldursdóttir, bæjarfulltrúi B-lista, Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi B-lista og Björgvin Björgvinsson, formaður Framsóknarfélags Grindavíkur.