Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • „Komið að skuldadögum hjá okkur“
    Friðjón boðar frekari aðhaldsaðgerðir í Reykjanesbæ. VF-mynd: Hilmar Bragi
  • „Komið að skuldadögum hjá okkur“
    Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ sl. þriðjudag. VF-mynd: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 18. september 2014 kl. 12:04

„Komið að skuldadögum hjá okkur“

- kynna fleiri aðhaldsaðgerðir fljótlega

Tekist var á um rekstur og skuldir Reykjanesbæjar á bæjarstjórnarfundi á þriðjudagskvöld. Nýr meirihluti hefur áhyggjur af stöðu sveitarsjóðs í kjölfar uppgjörs fyrir rekstur Reykjanesbæjar fyrir fyrri hluta ársins.

„Í upphafi árs var gert ráð fyrir 23 milljóna króna hagnaði á sveitarsjóði á árinu og að samstæðan myndi skila 95 milljónum króna í mínus. Nú þegar erum við komin 648 milljónir í mínus með sveitarsjóðinn og í 1.132 milljón króna með samstæðuna. Þetta vekur ugg í mínu brjósti, þetta eru stórar tölur,“ sagði Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi Beinar leiðar, á fundinum. Hann vakti í máli sínu athygli á því að Háaleitisskóli á Ásbrú væri að skekkja mjög myndina í bókhaldi bæjarins. Skólinn væri tekjufærður upp á 450 milljónir króna. Hann sagði þó tekjurnar af skólanum þó aðeins vera óeiginlegar tekjur.

„Þessi skóli er í raun og veru engar tekjur, við getum ekki ráðstafað þessum tekjum. Þetta er skóli uppi á velli og við erum ekkert að fara að selja hann. Hann verður bara þarna. Þess vegna segi ég að þessi staða upp á 648 milljónir króna núna og til að fara í 23 milljóna króna hagnað eins og áætlanir gerðu ráð fyrir, þá þurfum við að ná í 670 milljónir króna á seinni hluta ársins til viðbótar við þennan skóla. Þá erum við að tala um að vandamálið hjá bæjarsjóði sé yfir milljarð króna. Verkefnið er stórt og við þurfum að sameinast um að leysa það,“ sagði Guðbrandur á fundinum.

Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði á bæjarstjórnarfundinum að helsta vandamál sveitarfélagsins um þessar mundir hafi verið gríðarleg fjölgun fólks.

„Fjölgun hér hefur verið það mikil að útgjöld hafa verið að vaxa og vaxa. á ýmsum sviðum. Í uppgjörinu fyrir fyrstu sex mánaða þá fannst mér áberandi að það væru þrír liðir sem við erum að taka virkilegt högg af þar sem við erum ekki að fá neinar tekjur á móti. a.m.k. ekki í bili. Það er kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar sem er mikið hærri en við gerum ráð fyrir, það eru fræðslumálin sem m.a. helgast af því að að það eru miklu fleiri börn í leikskólunum okkar en við gerðum ráð fyrir. Svo eru það málefni fatlaðra sem eru miklu dýrari en við höfum verið að gera ráð fyrir og eru stór hluti af því sem við þurfum að ræða við ríkið. Kostnaðurinn er miklu meiri en við gerðum ráð fyrir þegar við tókum yfir þennan málaflokk og við fáum ekki tekjur af því fyrr en eftir væntanlega tvö ár,“ sagði Böðvar og bætti við: „Það er ennþá gríðarleg fjölgun í sveitarfélaginu, það er mikið af fólki að flytja hingað og þessir liðir halda áfram að vaxa“.

„Eins og Böðvar sagði hefur fjölgun íbúa skapað ýmis vandamál í sveitarfélaginu, en þetta var jú stefna fyrrverandi meirihluta til margra ára að fjölga íbúum í sveitarfélaginu því stoðirnar væru svo sterkar og tilbúnar að taka á móti fjölguninni. Nú erum við að sjá fjárhagsleg vandamál sem fylgir þessari miklu fjölgun,“ sagði Friðjón Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra. „Rekstur og fjárfestingar fyrri ára eru í dag að skapa okkur verulega erfiðleika í rekstri. Við höfum selt eignir og tekið lán upp á 25 milljarða á síðustu tólf árum til að bjarga rekstrinum. Núna höfum við ekki eignir til að selja. Það er komið að skuldadögum hjá okkur. Við erum fullvissir um að við munum hafa þetta mál. Við þurfum að greiða niður skuldir á næstu sjö árum upp á allt að tvo milljarða á ári, samtals fimmtán milljarða króna af rekstri, þannig að ebitda þarf að vera ansi góð til að standa undir því, sem hún hefur ekki gert síðustu tólf ár. Við höfum þegar gripið til aðhaldsaðgerða og væntanlega munum við kynna fleiri aðgerðir fljótlega en þetta verður ekki auðvelt. Við sjáum það að vegna fjárfestinga og þungs reksturs til margar ára þá er staðan svona í dag. Það er ekkert sem felur það,“ sagði Friðjón.

Árni Sigfússon, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði það rétt hjá Friðjóni að það hafi verið stefna fyrrverandi meirihluta að fjölga íbúum, enda sýni rannsóknir að hagstæðasta stærð sveitarfélags sé með 28-30.000 íbúum. „Fjórtánþúsund manna samfélag á vel að standa undir þeirri grunnþjónustu sem það þarf að veita. Við vitum það að minni sveitarfélög hafa ekki getað veitt sömu þjónustu að sömu gæðum og við höfum verið að gera. Ég vona að það sé ekki einhver breyting hér á og vildi eiginlega spyrja Friðjón með hvaða hætti ætla menn að stöðva þessa fjölgun. Nú er ennþá fjölgun. Þrátt fyrir nýjan meirihluta er fjölgun í bæjarfélaginu okkar. Er það þá stefna nýs meirihluta að stöðva þessa fjölgun og með hvaða hætti verður það gert,“ spurði Árni á fundinum.

Ekki stóð á svari frá Friðjóni Einarssyni: „Það er gaman að fyrrum bæjarstjóri getur komið upp hérna og verið grínisti ef að hann hefur haldið það að ég ætli að fara að stöðva þessa fjölgun. Svona er ekki svaravert“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024