Koma Grindvíkingar Sparisjóðnum til bjargar?
Undanfarið hafa staðið yfir björgunaraðgerðir vegna Sparisjóðsins í Keflavík sem stendur tæpt í ölduróti bankahörmunga. Talið er að aðgerðir síðustu daga geti hjálpað Spkef og tryggt framtíð hans. Meðal þátttakenda í þessari björgunaraðgerð eru Reykjanesbær, Grindavíkurbær, lífeyrissjóðir og fleiri aðilar.
Grindvíkurkaupstaður á til auðveldasta hjálpartækið en það eru litlir fjórir milljarðar króna sem þeir fengu fyrir sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja ekki alls fyrir löngu. Hefur verið leitað til Grindvíkinga um að færa þessa peninga inn á reikning í Spkef. Þessir peningar eru á reikningi í Landsbanka Íslands og mun málið verða tekið fyrir í bæjarstjórn Grindavíkur í hádeginu á morgun, mánudag. Samkvæmt heimildum vf.is hefur málið fengið jákvæða umfjöllun og talið líklegt að samþykkt verði að færa allt að helmingi upphæðarinnar inn á reikning í Sparisjóðnum. Grindvíkingar hafa þó óskað eftir staðfestingu eða einhvers konar öryggistimpli frá ríkisstjórinni svo þetta geti ekki orðið einhver áhætta. Hún mun vera komin.
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum fagnaði um helgina 30 ára afmæli en samstarfið hefur lengi verið rómað og umræddir peningar Grindvíkinga urðu einmitt til út úr stærsta verkefni SSS frá upphafi en það er Hitaveita Suðurnesja. Því sé talið eðlilegt að Grindvíkingar komi að björgun Sparisjóðsins með þessum hætti. Þeir muni með slíkum stuðningi vinna mörg prik en Grindvíkingar hafa oft þótt erfiðir í samstarfi sveitarfélaganna.
Reykjanesbær hefur staðið þétt að baki Spkef og boðist til að gefa út skuldabréf fyrir allt að 2,5 milljarð króna sem Lífeyrissjóðurinn Festa og fleiri lífeyrissjóðir geti keypt. Fyrir helgina gáfu Reykjanesbær, Garður, Sandgerði og Vogar út stuðningsyfirlýsingu Spkef til handa en öll þessi sveitarfélög geyma Hitaveitu-„gullið“ sitt á reikningum Spkef.
Í viðtali við vf.is í lok vikunnar sagði formaður Verslunarmannafélag Suðurnesja að fólk út um allt væri að vinna í björgunaraðgerðum fyrir Spkef. Fleiri sem komið hafa að málinu segja að takist að bjarga Sparisjóðnum í Keflavík verði engu að síður að taka rekstur hans til gagngerrar endurskoðunar.