Kom særður og blóðugur á lögreglustöð eftir hnífsstungu
	Götum í Njarðvík var lokað um tíma í dag meðan sérsveitarmenn leituðu að og handtóku mann sem hafði veitt öðrum áverka með hnífi.
	
	Um klukkan 16:30 í dag kom blóðugur maður á lögreglustöðina á Hringbraut í Reykjanesbæ og kvaðst hafa verið stunginn með hnífi. Hann var særður en þó ekki lífshættulega.
	
	Í framhaldi af því voru lögreglumenn ásamt sérsveitarmönnum sendir á vettvang í þeim tilgangi að finna og handtaka meintan árásaraðila. Var hann yfirbugaður skömmu síðar og er nú í haldi lögreglu.
	
	Líðan mannsins sem var stunginn er eftir atvikum.
	
	Málið er í rannsókn. Frekari upplýsingar verða ekki veittar að sinni, segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
	
	


 
	
						 
	
					


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				