Kom ekki á óvart
Gunnar Marel Eggertsson, oddviti Vinstri grænna í Reykjanesbæ, segir kosningaúrslitin og gengi VG vissulega vera vonbrigði. „Við buðum upp á aðra valkosti og töldum okkur vinna heiðarlega og ekkert á bak við tjöldin eins og aðrir hafa gert. Við unnum mjög vel en þetta er niðurstaðan. Við verðum auðvitað að una því,“ sagði Gunnar Marel í samtali við Víkurfréttir í morgun.
-Kom þessi útkoma á óvart?
„Nei, þetta kom mér ekki á óvart. Ég gerði mér alveg grein fyrir að það yrði á brattann að sækja. En þetta er líka þáttur í því að segja sinn hug og það voru þó þetta margir sem kusu okkur. Einnig er það athyglisvert hversu stór hópur er óánægður og hefur áhyggjur af framhaldinu í bæjarmálum Reykjanesbæjar. Eins og stærsti flokkurinn rak sína kosningabaráttu, að við værum komnir til að stoppa álver og þar frameftir götunum, var illviðráðanlegt. Það er ekki við slíka maskínu að eiga þegar tugir manna leggjast á símalínurnar, hringja í fólk og úthrópa aðra flokka. Litir flokkar sem reyna af veikum mætti að hafa áhrif búa ekki yfir viðlíka mannafla sem getur hugsað sér að setjast niður við símana og ófrægja annan flokk,“ sagði Gunnar Marel.
---
VFmynd/Hilmar Bragi - Gunnar Marel og eiginkonan Þóra Guðný Sigurðardóttir við kjörkassann á laugardaginn.