Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kom á forgangi úr Hafnarfirði í sjúkrabílalausan Reykjanesbæ
Miðvikudagur 26. október 2011 kl. 18:41

Kom á forgangi úr Hafnarfirði í sjúkrabílalausan Reykjanesbæ

Í augnablikinu eru engir tiltækir sjúkrabílar í Reykjanesbæ og eru þeir þrír bílar sem Brunavarnir Suðurnesja hefur yfir að ráða allir uppteknir í verkefnum. Mikið annríki hefur verið við sjúkraflutninga síðdegis. Næsti lausi sjúkrabíll er í Hafnarfirði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Á síðustu tveimur klukkustundum hafa verið sex sjúkraflutningar og um tíma voru sjúkrabílarnir þrír úti í verkefnum samtímis. Þá kom upp sú staða að koma þurfti sjúklingi frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með forgangi til Reykjavíkur. Næsti lausi sjúkrabíll var í Hafnarfirði og þurfti að aka Reykjanesbrautina á forgangi til Reykjanesbæjar til að sækja sjúklinginn.


Þegar þetta er skrifað er enn sjúkrabílalaust, þ.e. allir sjúkrabílar uppteknir eða á leið frá höfuðborginni eftir sjúkraflutninga þangað.
Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir að nú væri einn sjúkrabíll á leiðinni í gegnum Hafnarfjörð til Suðurnesja, annar væri við sjúkrahús í Reykjavík og sá þriðji er í útkalli í Reykjanesbæ.


Þetta ástand er í raun óþolandi fyrir Suðurnes. Brunavarnir Suðurnesja höfðu áður fjóra sjúkrabíla, þ.e. þrjá sem sinna útköllum og þann fjórða til vara þegar álagstoppar koma. Nú er fjórði bíllinn ekki lengur til staðar vegna niðurskurðar. Ofan á allt er svo það rekstarfé sem Brunavarnir Suðurnesja fær til sjúkraflutninga takmarkað. Nú standa yfir viðræður við Sjúkratryggingar Íslands og segir Jón Guðlaugsson að það sé ljóst að Brunavarnir Suðurnesja verði að fá aukin framlög, því annars verði reksturinn mjög erfiður.


Meðfylgjandi myndir voru teknar við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja nú rétt áðan þegar sjúkrabíllinn sem var í Hafnarfirði þegar útkallið kom frá HSS sótti sjúkling og flutti hann til Reykjavíkur. VF-myndir: Hilmar Bragi