Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Kolkrabbinn framleiðir 30 megavött í Svartsengi
Föstudagur 4. apríl 2008 kl. 17:37

Kolkrabbinn framleiðir 30 megavött í Svartsengi

Hitaveita Suðurnesja hf. tók orkuver 6 formlega í notkun í gær. Afkastageta gufuhverfils orkuversins er 30 megawött. Raforkan sem unnin er í Orkuveri 6 að hluta til orka úr jarðhitakerfi svæðisins sem ekki hefur nýst hingað til. Gufuhverfillinn er einnig mjög sérstakur þar sem hann er hægt að keyra á 16 bara þrýstingi, 6 bara og 0,6 bara þrýstingi. Vegna þessa hefur hverfillinn fengið nafnið Kolkrabbinn, en inn á vélina liggja fjölmargar leiðslur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við vinnslu jarðhitakerfisins í Svartsengis hefur myndast öflugur gufupúði ofarlega í jarðlögunum. Þrýstingur í honum er meiri en inntaksþrýstingur gufuhverfla orkuversins og því hefur orðið að fella þrýstinginn með lokum á holunum og hefur hluti orkunnar því ekki nýst.

Hugmyndin um að nýta mismunandi þrýsting í vinnslukerfinu var borin undir Fuji Electric Systems í Japan sem framleitt hafa flestar vélar virkjunarinnar í Svartsengi. Sérfræðingum Fuji leist ekki fyrst á hugmyndina um fjölþrýstivél í upphafi en sáu svo að slík vél gæti einnig hentað öðrum jarðhitakerfum og aukið nýtni og sveigjanleika.

Framkvæmdir við virkjunina hafa staðið yfir í nærri tvö ár. Framleiðsla í virkjuninni hófst fyrir áramót en þar sem gufuöflun var ekki lokið komst hann ekki í full afköst fyrr en í síðasta mánuði. Þá var tengd við hann ný hola sem boruð var í Svartsengi, hola SV-22. Orkuver 6 er í afar flóknu samspili við aðra hluta orkuversins í Svartsengi. Heildarkostnaður við framkvæmdina, ásamt fjármagnskostnaði, verður um 4,4 milljarðar kr.

Mynd: Sex vélfræðingar Hitaveitu Suðurnesja tóku fyrstu skóflustunguna að orkuveri 6 fyrir tveimur árum. Þeir aðstoðuðu nú barnabörn sín við að klippa á borða til merkis um að orkuverið væri komið í gagnið.