Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Knús í glórulausum byl
Myndir: Björgunarsveitin Þorbjörn
Mánudagur 7. desember 2015 kl. 09:28

Knús í glórulausum byl

– heldur björgunarsveitarfólki gangandi

„Ég veit ekki hvernig við getum nokkurn tímann þakkað ykkur, við erum búin að vaska allt upp í björgunarsveitarhúsinu og gera fínt. Megum við að minnsta kosti fá að knúsa ykkur áður en við förum?“ Þetta sögðu erlendir ferðamenn við björgunarsveitarfólk í björgunarsveitarhúsinu í Grindavík á laugardagskvöld eftir vægast sagt langan dag í baráttu við veðrið.

„Stundum kemur það fyrir, eins og í gær [laugardag] þegar ég sat rennandi blautur og kaldur í björgunarsveitarbílnum í glórulausum byl að aðstoða ferðafólk, að maður veltir fyrir sér af hverju ég standi í þessu öllu saman... Ég fékk svo svarið við því þegar ferðafólkið, sem var gráti næst af gleði yfir því að við skyldum hafa bjargað bílnum þeirra og öllu sem í honum var seint í gærkvöld kom og bað mig um knús. Það var nóg…“ Þetta skrifar Otti Sigmarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík á fésbókarsíðu sína eftir annasaman laugardag við að bjarga fólki úr föstum bílum á Suðurstrandarvegi sem hefur verið ófær síðustu daga.

„Ég settist í sófann eftir annasaman dag, beið eftir kvöldmatnum og skrifaði þessa færslu. Ég var rétt hálfnaður þegar síminn hringdi og ég þaut út um hurðina til þess að sækja veika konu í Krýsuvíkurskóla. Ófærðin var slík að á tímabili vissi ég ekki hvort ég væri á vegi eða uppi á jökli. Við kláruðum verkefnið og komum konunni í sjúkrabíl.

Að baki eru þrjú útköll frá því föstudagskvöld og samtals að baki tæpar 20 klukkustundir í þeim. Ég er vissulega heppin að eiga skilningsríka fjölskyldu sem skilur þetta allt, fyrir það get ég aldrei þakkað nógu vel. Ég fer samt aftur þegar kallið kemur, þá fæ ég kannski annað knús,“ skrifar Otti að endingu.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024