Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Knattspyrnukrakkar safna undirskriftum vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar
Laugardagur 29. maí 2004 kl. 15:26

Knattspyrnukrakkar safna undirskriftum vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar

Knattspyrnustrákar og -stelpur í 3. flokki Víðis og Reynis hafa ákveðið að leggja sitt af mörkum í áralöngu baráttumáli Suðurnesjamanna, tvöföldun Reykjanesbrautarinnnar og hafa hafið undirskriftasöfnun um áskorun á ríkisstjórn Íslands varðandi flýtingu framkvæmda. Að lokinni söfnun munu þau hlaupa með áskorunina alla leið til Hafnarfjarðar þar sem hún verður afhent fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Þeir sem vilja sýna málefninu stuðning geta smellt hér og skráð sig á undirskriftarlistann.

Hlaupið er einnig áheitasöfnun vegna þess að krakkarnir fara í sumar á Gothia Cup, sem er stórt alþjóðlegt fótboltamót sem fer fram í Gautaborg í júlí, og leita eftir stuðningi almennings þar eð slíkt framtak er afar kostnaðarsamt. Þau verða með ýmis konar fjáraflanir í gangi, þar á meðal styrktarlínu þar sem hægt er að leggja þeim til 300 kr. með því að hringja í númerið 902-5050.

Steinþór Jónsson, talsmaður áhugahóps um tvöföldun Reykjanesbrautar, þakkaði þessu unga fólki stuðninginn í baráttunni og skorar á alla að sýna þeim stuðning í verki og hringja í styrktarlínuna. „Í hverri viku hafa fjölmargir samband við mig og hvetja okkur í áhugahópnum til dáða og það er afskaplega gaman að sjá unga fólkið sýna þessu máli áhuga og taka þátt í baráttunni“.
Áheitahlaupið fer af stað kl. 8 að morgni laugardagsins 12. júní og verður hlaupið frá hringtorginu við Mánagrund alla leið til Hafnarfjarðar þar sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar fær listann afhentan.

VF-mynd/Þorgils Jónsson: Steinþór og Kristín Kristjánsdóttir, formaður fjárölfunarnefndar Reynis/Víðis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024