Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Knattspyrnudeild Keflavíkur minnist Rúnars Júlíussonar
Laugardagur 13. desember 2008 kl. 17:06

Knattspyrnudeild Keflavíkur minnist Rúnars Júlíussonar

Rúnar Júlíusson, tónlistarmaður og fyrrum leikmaður Keflavíkur, var jarðsettur frá Keflavíkurkirkju í gær. Knattspyrnudeild Keflavíkur minnist Rúnars á vef Keflavíkur í gær.

Rúnar fæddist í Keflavík 13. apríl 1945.  Hann sýndi snemma afburðahæfileika á knattspynurvellinum en á þessum árum var knattspyrnan að ryðja sér til rúms í Keflavík.   Rúnar var þar í hópi pilta sem náðu góðum árangri í yngri flokkum félagsins og hann var í fyrsta Íslandsmeistaraflokki Keflavíkur þegar 4. flokkur pilta varð Íslandsmeistari árið 1959.  Í því liði voru nokkrir piltar sem síðar urðu lykilmenn í gullaldarliði Keflavíkur á 7. áratugnum. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rúnar lék fyrst með meistaraflokki Keflavíkur árið 1963 þegar liðinu tókst naumlega að halda sæti sínu í 1. deild.  Árið eftir var hins vegar annað upp á teningnum og Keflavík varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn.  Ungu leikmennirnir sem höfðu leikið með yngri flokkum félagsins voru þar í veigamiklu hlutverki ásamt nokkrum eldri og reyndari leikmönnum.  Keflavíkurliðið tryggði sér titilinn með 1-1 jafntefli gegn KR á Njarðvíkurvelli að viðstöddu fjölmenni.  Rúnar skoraði mark Keflavíkur í leiknum eins og kemur fram í skemmtilegri frásögn Morgunblaðsins.  "Sigurður [Albertsson] lék upp með knöttinn og gaf út á vinstri kant til Karls Hermannssonar.  Karl lék á varnarmann KR og gaf síðan inn í vítateiginn, en þar kom Rúnar Júlíusson brunandi eins og skeiðhestur með makkann flaksandi og afgreiddi knöttinn í netið".

Árið eftir var Rúnar fastamaður í liði Keflavíkur sem náði ekki að fylgja eftir góðum árangri árið áður.  Liðið lék í Evrópukeppni meistaraliða og mætti þar ungverska liðinu Ferancvaros en Ungverjar voru þá meðal helstu knattspyrnuþjóða Evrópu.  Fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli lauk með 4-1 sigri Ferencvaros en Rúnar skoraði þar fyrsta mark Keflavíkur í Evrópukeppni.

Eftir þetta fór leikjum Rúnars með Keflavíkurliðinu fækkandi enda var hann þá í hópi vinsælustu tónlistarmanna landsins með hljómsveitinni Hljómum.  Næstu árin lék Rúnar með mörgum af vinsælustu hljómsveitum landsins.  Hann stofnaði síðar plötuútgáfu og sinnti tónlistinni til dauðadags.  Þrátt fyrir að knattspyrnuferill Rúnars hafi ekki verið langur markaði hann djúp spor í knattspyrnusögu Keflavíkur.  Eftir að hann hætti að leika með liðinu studdi Rúnar knattspyrnuna í Keflavík alltaf með ráðum og dáð og samdi m.a. og tók upp stuðningslag fyrir Keflavíkurliðið.

Það er óhætt að segja að nafn Rúnars Júlíussonar og Keflavík hafi verið samtvinnuð undanfarna áratugi.  Í hugum flestra landsmanna var Rúnar persónugervingur Keflavíkur og hann bar hróður bæjarins víða.  Ekki aðeins sem tónlistar- og knattspyrnumaður en ekki síður vegna eigin mannkosta enda var Rúnar hvers manns hugljúfi og drengur góður. 

Stofnaður hefur verið sjóður til minningar um Rúnar Júlíusson í Sparisjóðnum í Keflavík nr. 1109-05-2717, kt. 610269-3389.  Sjóðnum er ætlað að veita styrki til ungra og upprennandi poppara á Suðurnesjum.  

Knattspyrnudeild Keflavíkur sendir fjölskyldu Rúnars samúðarkveðjur um leið og við kveðjum góðan félaga.

Mynd úr Faxa af 4. flokki Keflavíkur sem síðar varð fyrsta Íslandsmeistaralið Keflavíkur.

Mark Rúnars gegn KR sem tryggði Keflavík Íslandsmeistaratitilinn árið 1964.

Íslandsmeistarar Keflavíkur 1964.