Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Knattspyrnudeild Keflavíkur ætlar sér stóra hluti á auglýsingamarkaði
Tvö dæmi um LED-ljósaskilti við Aðaltorg í Keflavík og á Fitjum í Njarðvík. VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 28. apríl 2023 kl. 06:25

Knattspyrnudeild Keflavíkur ætlar sér stóra hluti á auglýsingamarkaði

Knattspyrnudeild Keflavíkur ætlar sér stóra hluti á auglýsingamarkaði ef áform um LED-auglýsingaskilti ganga eftir. Sótt er um uppsetningu slíkra skilta til umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar. Í umsóknum segir að um sé að ræða nýjan lið í fjáröflun knattspyrnudeildarinnar sem getur orðið félaginu afar mikilvægur til lengri tíma litið.

Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur sótt um leyfi til að setja upp LED-ljósaskilti á Baldursgötu 14 í Keflavík. Þar er fyrir flettiskilti. Einnig er sótt um leyfi fyrir ljósaskilti á auglýsingaklukku á gatnamótum Hafnargötu og Aðalgötu en knattspyrnudeildin hefur gert samning við Kiwanishreyfinguna í Reykjanesbæ um að fá auglýsingafleti á klukkunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þá óskar deildin eftir leyfi fyrir ljósaskiltum í stað flettiskilta við Hringbraut í Keflavík. Um er að ræða tvo fleti sem eru aftan á nýrri vallarklukku á knattspyrnuvellinum við Sunnubraut en snúa út að Hringbrautinni. Í umsókn er nefndur sá möguleiki að slökkva á skiltinu á kvöldin og um nætur til að trufla ekki íbúa í nágrenninu.

Knattspyrnudeildin sækir einnig um lóðir við tvö hringtorg á Reykjanesbrautinni ofan byggðarinnar í Keflavík og Njarðvík. Annars vegar við hringtorgið við Þjóðbraut og svo hins vegar við hringtorgið við Aðalgötu.

Að endingu er sótt um leyfi til uppsetningar á LED-ljósaneti á vesturhlið Reykjaneshallar. Ljósanetið er hugsað fyrir stærri fleti en hefðbundnir LED-skjáir og auglýsingaflöturinn á Reykjaneshöllinni myndi sjást vel frá Reykjanesbraut, segir í umsókninni. Kemur fram að auglýsingaflöturinn á Reykjaneshöll yrði í samvinnu við knattspyrnudeild UMFN.

Afgreiðsla ráðsins er að erindi knattspyrnudeildarinnar er frestað og skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram.