Klór í drykkjarvatni í Leifsstöð
Markaðs- og atvinnuráð Reykjanesbæjar hefur farið þess á leit við Utanríkisráðuneytið að það óski eftir viðræðum við Vatnsveitu Suðurnesja, VAS, um að Flugstöð Leifs Eiríkssonar tengist veitukerfi VAS. Ráðið telur klórblandað neysluvatn skaða ímynd Íslands og að starfsmenn stöðvarinnar eigi rétt á aðgangi að óblönduðu vatni.Kjartan Már Kjartansson (B) lagði fram greinargerð vegna málsins á fundi ráðsins í síðustu viku, og í henni kemur fram að blanda þurfi neysluvatn í flugstöðinni með klór þar sem stöðin er skilgreind sem hernaðarmannvirki. Fyrirhuguð viðbygging stöðvarinnar mun ekki falla undir þá skilgreiningu og því telur ráðið ástæðulaust að klórblanda neysluvatn í þeim hluta byggingarinnar. „Markaðs- og atvinnuráð Reykjanesbæjar telur að með því að bjóða öllum þeim erlendu ferðamönnum sem um stöðina fara, uppá klórblandað neysluvatn sé verið að skaða ímynd landsins og vannýta gullið tækifæri til landkynningar. Auk þess er flugstöðin stærsti vinnustaður á Suðurnesjum og mikilvægt að starfsfólk eigi kost á hreinu, óblönduðu neysluvatni“, eins og segir orðrétt í greinargerðinni.Ráðið samþykkti greinargerðina og fól framkvæmdastjóra þess að senda hana til Utanríkisráðuneytisins. Kjartan Már sagðist hafa fulla ástæðu til að ætla að ráðuneytið veitti skjót og góð svör. Kristján Gunnarsson (J) tók heilshugar undir greinargerðina og sagðist sjálfur hafa óskað eftir því við Heilbrigðisráðuneytið að þetta mál yrði skoðað, en engin viðbrögð fengið.