Klippa þurfti ökumann úr bíl sem endaði ofan í lagnaskurði
Rjúfa þurfti þak fólksbíls til að ná ökumanni út eftir að bíll hans endaði ofan í opnum lagnaskurði á Meiðastaðavegi í Garði síðasta fimmtudag. Ökumaðurinn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en hlaut ekki mikil meiðsl og fór til síns heima eftir skoðun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Skurðurinn var opinn og mikil hálka á veginum en ökumaðurinn var einn í bifreiðinni þegar slysið átti sér stað.
Bíllinn er ónýtur eftir óhappið. Tveir lögreglubílar mættu á vettvang ásamt sjúkrabíl og tækjabíl slökkviliðs. Lögreglan segir í viðtali við Víkurfréttir að unnið sé að því að upplýsa það hvort merkingar hafi verið samkvæmt lögum og reglum. Fulltrúi verktaka segir að merkingar hafi verið við skurðinn en hálkan svo miki að bílstjórinn hafi ekki ráðið við aðstæður. Eflaust megi þó alltaf gera betur í merkingum.
Tildrög óhappsins eru að sögn lögreglunnar í rannsókn en á vettvangi voru yfirstandandi framkvæmdir með opnum skurði fyrir miðjum veginum sem bifreiðin hafnaði ofan í. HS Veitur harma atvikið en verktaki framkvæmdarinnar er ÍAV. „Fyrirtækið leggur mikið upp úr öryggismálum og lítum við þetta tilvik alvarlegum augum. Við erum að afla okkur upplýsinga um málsatvik til að geta brugðist við með það að markmiði að fyrirbyggja að svona lagað komi fyrir aftur. Liður í því er að endurskoða verkferla varðandi merkingar vinnusvæða verktaka á okkar vegum,“ segir í svari frá HS Veitum vegna málsins.