Klemmdist fastur undir bíl
Ökumaður í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum missti stjórn á bíl sínum á Reykjanesbraut á móts við Voga, með þeim afleiðingum að bíllinn valt og klemmdist maðurinn undir honum. Óhappið varð með þeim hætti að bifreiðinni var ekið ofan í mönina milli akbrauta og kastaðist hún yfir veginn og staðnæmdist á hægri hlið, norðan megin vegarins.
Ökumaðurinn reyndist vera skorðaður undir hurðarkarmi bílsins. Læknir var kvaddur á staðinn, svo og sjúkrabifreið og tækjabíll. Notaður var loftpúði til að lyfta bílnum upp og skreið ökumaður þá óstuddur undan honum. Meiðsl hans voru talin minni en óttast hafði verið í fyrstu.