Kjördæmisþing Samfylkingar í Reykjanesbæ á sunnudag
Samfylkingin í Suðurkjördæmi heldur kjördæmisþing sunnudaginn 23. september í Reykjanesbæ, nánar tiltekið í sal Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, Víkurbraut 13 við Keflavíkurhöfn. Þingið hefst kl. 12.00 og er áætlað að það standi til kl.15.00.
Alþingiskosningarnar 2013 – starfið í kjördæminu og stefnan - eru meginefni kjördæmisþingsins. Á kjördæmisþinginu verður tekin ákvörðun um fyrirkomulag vals frambjóðenda á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í komandi kosningum.
Stjórn kjördæmaráðsins leggur eftirfarandi tillögu fyrir kjördæmaþingið:
Valið verði á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi vegna alþingiskosninganna vorið 2013 með flokksvali laugardaginn 17. nóvember.
Kjördæmisráðið velji á milli tveggja aðferða í samræmi við skuldbindandi reglur Samfylkingarinnar um aðferðir við val á framboðslista:
- 3.1 Flokksval – prófkjör þar sem flokksmenn einir hafa kosningarétt.
- 3.2 Flokksval – prófkjör þar sem flokksmenn og skráðir stuðningsmenn einir hafa kosningarétt.
Kjördæmisráðið velji einnig milli tveggja leiða – paralista eða fléttulista samkvæmt grein 5.5 í fyrrgreindum reglum – svo jafnræði kynja sé tryggt.
Kjósa skal 7 í flokksvalinu og kosning í 4 efstu sæti listans skal vera bindandi.
Framboðsfrestur í flokksvalið renni út kl. 17.00 24. október.
Frambjóðendur skili 15 meðmælendum.
Þátttakendur í flokksvalinu greiði kr. 20.000 í sameiginlegan kostnað.
Jafnframt verður á kjördæmisþinginu kosin 5 manna kjörstjórn sem stýra mun framkvæmd flokksvalsins og 5 manna uppstillinganefnd, sem ásamt 4 efstu mönnum í flokksvalinu, mun leggja fullskipaðan framboðslista fyrir kjördæmisþing.