Kjartan Már mættur til starfa
Hjörtur Zakaríasson, bæjarritari til nærri 30 ára fór með nýjan bæjarstjóra í kynningarrúnt.
Kjartan Már Kjartansson, nýráðinn bæjarstjóri í Reykjanesbæ mætti til starfa í morgun 1. september. Hann er þriðji bæjarstjóri í sögu Reykjanesbæjar en bæjarfélagið er tuttugu ára á þessu ári.
Elísabet Magnúsdóttir, ritari bæjarstjóra tók á móti Kjartani og afhenti honum blómvönd í tilefni dagsins. Hún starfaði með síðustu tveimur bæjarstjórum, þeim Ellerti Eiríkssyni og Árna Sigfússyni. Hjörtur Zakaríasson, bæjarritari til tæpra þriggja áratuga og settur bæjarstjóri frá síðasta starfsdegi Árna fór með Kjartani um bæjarskrifstofurnar og kynnti hann fyrir starfsfólki. Kjartan þekkir marga starfsmenn bæjarins en hann var m.a. kennari og skólastjóri Tónlistarskóla Keflavíkur í tæpa tvo áratugi og þá var hann einnig bæjarfulltrúi og varabæjarfulltrúi í þrjú kjörtímabil. Hann þekkir því nokkuð vel til margra þátta bæjarfélagsins.
„Þetta er spennandi verkefni og ég mun nota fyrstu dagana til að koma mér inn í hin ýmsu málefni. Stærsta verkefnið í fyrstu vikunni er auðvitað Ljósanótt og það verður gaman að fá að taka þátt í því. Þá mun ég sitja minn fyrsta bæjarstjórnarfund sem bæjarstjóri. Ég hlakka mikið til að takast á við þetta starf og vonast eftir góðu samstarfi við starfsmenn og bæjarbúa,“ sagði Kjartan Már.
Kjartan þurfti að stilla bæjarstjórastólinn.
Hjörtur fór yfir málin með nýjum bæjarstjóra.
Hjörtur þekkir alla starfsmenn bæjarins eftir tæp 30 ár í starfi. Hann leiddi Kjartan um gangana.
Hér er Kjartan á tali við starfsmenn í þjónustumiðstöð og bókasafni.