Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kjartan Már kominn í 300 funda klúbbinn
Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, afhenti Kjartani Má blómvönd við tilefnið. VF-mynd: pket
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 19. nóvember 2021 kl. 07:02

Kjartan Már kominn í 300 funda klúbbinn

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og fyrrverandi bæjarfulltrúi sat sinn þrjú hundruðasta fund í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þriðjudaginn 2. nóvember. Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar afhenti Kjartani blómvönd á bæjarstjórnarfundi 16. nóvember.

Kjartan Már er kominn í lítinn hóp sem hefur setið fleiri en 300 bæjarstjórnarfundi. Fyrsti fundurinn sem Kjartan Már sat var áttundi fundur sveitarfélagsins sem haldinn var 4. október 1994 og þann fund sat hann sem varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kjartan var aðalbæjarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn árið 1998 og sat hann síðan sem bæjarfulltrúi kjörtímabilið 1998–2002 og 2002–2006. Á þessum tíma sat Kjartan 159 fundi sem aðal- og varafulltrúi, þar af sextán fundi sem forseti bæjarstjórnar.

Kjartan var síðan ráðinn bæjarstjóri árið 2014 og sat sinn fyrsta fund sem slíkur á 460. fundi  bæjarstjórnarsem haldinn var 3. september 2014. Hann hefur frá þeim tíma setið 141 fund sem bæjarstjóri kjörtímabilin 2014–2018 og frá 2018 til dagsins í dag.

„Það var mikil fengur fyrir nýjan meirihluta sem tók við á árinu 2014 að fá Kjartan Má til liðs við sig og hefur hann verið algjörlega ómetanlegur í starfi sínu sem bæjarstjóri. 

Að hafa bæjarstjóra sem þekkir sveitarfélagið sitt út og inn og tekur þátt í samfélaginu af lífi og sál er mikilvægt hverju sveitarfélagi og þannig bæjarstjóri er Kjartan Már,“ sagði Guðbrandur Einarsson við upphaf bæjarstjórnarfundarins. 

Flesta bæjarstjórnarfundi hjá Reykjanesbæ hefur Böðvar Jónsson setið, yfir 400 talsins. Þeir sem hafa rofið 300 funda múrinn eru Björk Guðjónsdóttir, Árni Sigfússon og Guðbrandur Einarsson. Þá hafa þeir Friðjón Einarsson, Baldur Þórir Guðmundsson og Gunnar Þórarinsson nýlega náð 200 funda takmarkinu.