Kjarasamningur forsenda nýtingarleyfa
Smábátasjómenn á bátum undir 30 tonnum hafa verið samningslausir í tæpan áratug. Hefur sú staða að þeirra mati orðið til þess að verulega hafi verið gengið á rétt þeirra og kjör. Meðal annars með því að breyta verði og skiptahlut afla til að lækka laun þeirra. Þetta kom fram í óundirbúinni fyrirspurn sem Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjar-og menntamálanefndar lagði fyrir Guðbjart Hannesson velferðarráðherra sem fer með vinnumarkaðsmál á Alþingi.
„Lausnin er að mínu mati sú að setja inn í lög um stjórnkerfi fiskveiða ákvæði um að ekki sé heimilt að þinglýsa kvóta á smábát nema fyrir liggi samþykktur kjarasamningur. Að kjarasamningur sé forsenda nýtingarleyfis. Nú er lag að gera þess háttar breytingar við þá endurskoðun laganna sem nú stendur yfir. Það er skylda Alþingis að tryggja réttindi sjómanna á smábátum sem og annarra hópa en þeir búa nú við mikið ósamræmi eftir stærð báta,“sagði Björgvin.
Guðbjartur Hannesson tók undir með þingmanninum í svari sínu. Sagði þessa breytingu vel koma til greina. Hún hefði verið rædd í sáttanefndinni sem hann fór fyrir á sínum tíma og hlyti að koma til alvarlegarar skoðunar nú þegar sú staða blasi við að smábátasjómennirnir hafi verið án kjarasamnings í áratug. Það að skilyrða veiðileyfi við samþykktan kjarasamning væri mjög afgerandi og skýr lausn á málinu.