Kiwanismenn afhentu styrki við opnun jólatrjéssölu
Hafa selt jólatré í tæp 40 ár
Kiwanisklúbburinn Keilir hefur í nærri fjörutíu ár verið með sölu á lifandi jólatrjám. Um síðustu helgi afhentu Kiwanisfélagar veglega peningastyrki til Fjölskylduhjálpar á Suðurnesjum og Velferðarsjóðs Suðurnesja. „Við vitum að þessir styrkir fara á góða staði í gegnum þessa aðila,“ sagði Tóbías Brynleifsson, forseti Kiwanisklúbbsins Keilis.
Að venju er boðið upp á mikið úrval af fallegum, íslenskum jólatrjám, stórum sem smáum en einnig greniskreytingum og greniefni. Jólatréssalan er ekki jafn stór í fjáröflun klúbbsins eins og þegar hún var sem stærst fyrir allmörgum árum síðan en þá seldust mest tvö þúsund tré á Suðurnesjum í gegnum Keilismenn. Engu að síður er þetta árleg hefð hjá klúbbnum og félagar sinna jólatréssölunni af ánægju og kemur þeim í jólaskap. Fjöldi Suðurnesjamanna koma á hverju ári og kaupa af þeim tré og skreytingar. Allur ágóði af starfi þeirra fer til góðgerðarmála. „Við höfum þurft að sækja á önnur mið í fjáröflun en við höldum m.a. lundakvöld og kótilettukvöld. Þá afhendum við Lundann á hverju ári til aðila sem hafa skarað framúr á einhvern hátt,“ sögðu þeir félagar við tíðindamann Víkurfrétta.
Jólatréssalan er í porti Húsasmiðjunnar á Fitjum í Njarðvík eins og hún hefur verið undanfarin ár.
Það er mikið úrval af jólatrjám og skreytingum hjá þeim Kiwanismönnum.