Kísilryk á lóð United Silicon skaðlaust
-Upplýsingafulltrúi United Silicon segir niðurstöður rannsókna afar ánægjulegar
Hvítir sekkir sem safnast hratt upp á lóð United Silicon í Helguvík hafa vakið athygli. Innihald stórsekkjanna er kísilryk að sögn Kristleifs Andréssonar, upplýsingafulltrúa United Silicon. „Kísilryk er auka afurð við kísilframleiðslu. Efnið er meðal annars notað í steypu erlendis til að gera hana sterkari. Kísilrykið er skaðlaust og efnagreiningar liggja fyrir varðandi það.“
Kristleifur segir þessa sekki fara fækkandi á næstunni þar sem nú sé samningur í höfn með sölu á þessari aukaafurð verksmiðjunnar. „Markaðir fyrir kísilrykið hafa verið að opnast, en fram til þessa hefur gengið hægt að losna við kísilrykið.“
Hann segir margt jákvætt varðandi verksmiðjuna. Hægt og bítandi séu starfsmenn verksmiðjunnar, sem eru um 80 manns, að ná betri tökum á flóknu framleiðsluferli kísilmálms. „Umsvif hafnarinnar eru líka að aukast stórlega með nauðsynlegum tekjum. Ýmsir þjónustuaðilar koma ennfremur að rekstrinum og reynt er að nota fyrirtæki í heimabyggð ef nokkur kostur er.“
Kristleifur segir niðurstöður rannsókna hingað til vera afar ánægjulegar fyrir íbúa og fyrirtækið, þ.e. að frá verksmiðjunni berist engin skaðleg efni í skaðandi mæli fyrir íbúa eða starfsmenn verksmiðjunnar. „Lyktin er svo hlutur sem er ekki vandamál þegar ofninn er á fullu álagi.“