Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kísilmálmverksmiða í Helguvík: Óljóst með losunarheimildir
Fimmtudagur 23. ágúst 2007 kl. 11:25

Kísilmálmverksmiða í Helguvík: Óljóst með losunarheimildir

Ekki verður séð hvernig fyrirhuguð kísilmálmverksmiðja á að geta risið í Helguvík þar sem ekki hefur verið sótt um losunarheimildir fyrir hana, samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisráðuneytinu. Umsóknarfrestur um losunarheimildir fyrir tímabilið 1. janúar 2008 til 31. desember 2012 rann út 1. júní síðastliðinn og ljóst er að þær losunarheimildir sem þegar hefur verið sótt um eru mun meiri heldur en koma til úthlutunar samkvæmt skuldbindingum Íslands gagnvart Kyoto-bókuninni. Þá liggur fyrir að kvótinn mun minnka verulega á næstu árum því dregið verður úr losun gróðurhúsaloftegunda. Við úthlutun verður því væntanlega tekið tillit til þess hversu langt á veg verkefnin eru komin.  Sótt hefur verið um losunarheimildir fyrir fyrirhugað álver Norðuráls í Helguvík.

Lög um losun gróðurhúsalofttegunda voru samþykkt á Alþingi í vetur og þeim er ætlað að tryggja að losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju hér á landi verði ekki meiri en skuldbindingar Íslands leyfa samkvæmt Kyoto-bókuninni. Helsta nýmæli laganna er að atvinnurekstur sem losar yfir 30.000 tonn koldíoxíðs (Co2) á ári er skyldaður til þess að afla sér losunarheimilda sem nægja fyrir losuninni.


Samkvæmt  frumskýrslu um kísilmálmverksmiðju í Helguvík er ráðgert að hún muni í fyrsta áfanga framleiða 25 þúsund tonn af kísilmálmi en fullbyggð muni hún framleiða 50 þúsund tonn. Þá kemur fram að aðalmengunin verði losun á CO2 út í andrúmsloftið. Ekki kemur fram hversu mikil losunin verður en sé miðað við þær magntölur sem fram koma í skýrslunni má ætla að hún verði u.þ.b. 200 þúsund tonn. Í skýrslunni segir að til að framleiða 50.000 tonn af kísilmálmi þurfi um 130.000 tonn af kvartssandi, 59.000 tonn af kolefnum og um 670 gígavattsstundir af raforku á ári.


Á Vestfjörðum hafa verið uppi hugmyndir um að reisa olíuhreinistöð en umhverfisráðherra hefur sagt þær hugmyndir óraunhæfar þar sem þær rúmist ekki innan losunarheimilda.Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu virðist það sama vera upp á teningnum hvað varðar kísilmálverksmiðju í Helgvík.


Mynd: Horft yfir athafnasvæðið í Helguvík. Ljósm: Oddgeir Karlsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024