Kisa festist í fótbogagildru við Innri Njarðvík
Aflífa þurfti kött hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja í dag eftir að hann hafði fundist illa á sig kominn fastur í fótbogagildru í Innri Njarðvík í dag. Önnur framloppa kattarins var föst í gildrunni og ljóst að dýrið var illa brotið eftir að hafa barist um í gildrunni.
Það var íbúi í Innri Njarðvík sem gekk fram á kisu rétt fyrir hádegi við grjótgarð á fjörukambinum. Gildran var þar fest á milli steina en á þannig stað að af henni stafaði hætta fyrir önnur dýr en þau sem gildran var ætluð. Þá hefði gildran auðveldlega getað skaðað litlar hendur, en ekki er óalgengt að sjá börn að leik á þessum slóðum sem gildran fannst.
Íbúi í Innri Njarðvík, sem fann köttinn fastan í gildrunni, sagði þetta vera fjórðu gildruna af þessari tegund sem hann finnur og er gengið frá á ófullnægjandi hátt. Hann sagði einnig annars konar gildrur vera í grjótgörðunum sem væru hugsaðar til minkaveiða og ættu ekki að valda sama skaða og kötturinn varð fyrir.
Karl Karlsson hjá Umhverfisstofnun sagði í samtali við Víkurfréttir að þessar gildrur væru ekki ólöglegar, en reglur gilda um frágang þeirra. Þannig mega þær ekki valda öðrum dýrum skaða samkvæmt dýraverndarlögum. Gildrunni er ætlað að valda skjótum dauða, en ekki virka með þessum hætti, þ.e. festa bráðina lifandi og valda því að hún svelti til bana, sé ekki fylgst með gildrunni reglulega.
Fótbogagildrunni hefur verið komið í vörslu lögreglunnar. Kötturinn var aflífaður hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja í dag.
Myndirnar: Kötturinn fastur í gildrunni í dag og mynd af gildrunni á borði lögreglunnar.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson