Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Kirkjuvogskirkja máluð og lagfærð á 160 ára afmælinu
Kirkjuvogskirkja er 160 ára á þessu ári og er elsta kirkja á Suðurnesjum.
Mánudagur 6. september 2021 kl. 09:27

Kirkjuvogskirkja máluð og lagfærð á 160 ára afmælinu

Síðasta sumarmessa kirknanna á Suðurnesjum var í Höfnum.

Síðasta sumarmessa kirknanna var í Kirkjuvogskirkju síðastliðið sunnudagskvöld en alls voru haldnar sextán sumarmessur að þessu sinni. Það var við hæfi að ljúka messuröðinni í elstu kirkjunni á Suðurnesjum í Höfnum en Kirkjuvogskirkja fagnar 160 ára afmæli á þessu ári.

Tímamótum Kirkjuvogskirkju hefur verið fagnað með miklum endurbótum og lagfæringum á kirkjunni á síðustu tveimur árum. Á afmælisárinu var hún m.a. öll máluð að innan, predikunarstóll endurbættur og margt fleira gert. Meðal lagfæringa má nefna endurbætur á gluggum en kirkjan hélt ekki orðið vindi sem átti greiða leið inn um óþétta gluggana. Heyrðist þá oft lítið í kappklæddum prestinum í kaldri kirkjunni þegar vindur hvein en þannig lýsti Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir, prestur í Njarðvíkurprestakalli, því í sumarmessunni. Hún sagði að þessar lagfæringar hafi tekist vel og ættu margir þakkir skildar fyrir að koma að framkvæmdunum en kirkjan ætti margt velgjörðarfólk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Brynja Vigdís heldur hér á forláta skírnarskál sem kirkjan fékk árið 1929.

Hún sagði frá sögu Kirkjuvogskirkju í stuttu máli og þar kom fram að þegar hún var smíðuð árin 1860–1861 hafi framkvæmdirnar kostað 300 kýrverð, eins og sagt var frá á sínum tíma. Dannebrogsmaðurinn Vilhjálmur Kr. Hákonarson lét byggja kirkjuna á sinn kostnað en hún er úr timbri en hefur verið endurbyggð og lagfærð mörgum sinnum í gegnum tíðina, fyrst 1970 til 1972. Í kirkjunni  eru margir munir sem fólk og aðilar hafa gefið henni, m.a. glæsilega skírnarskál sem Sr. Jón Thorarensen gaf árið 1929. Jón skrifaði margar bækur um Hafnirnar, fólkið, útgerðarsöguna og margt fleira en hann var alinn upp í Kotvogi sem var eitt stærsta býli landsins á 19. öld. Predikunarstóllinn var upphaflega smíðaður árið 1876 og altaristaflan er frá 1865 en þessi 160 ára gamla kirkja er glæsileg eftir lagfæringarnar.

Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir, prestur stýrði síðustu sumarmessunni og sagði frá sögu kirkjunnar.