Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 15. desember 2000 kl. 22:00

Kirkjuvígsla á Keflavíkurflugvelli

Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, vígði nýja kapellu slökkviliðs Varnarliðsins við hátíðlega athöfn á Keflavíkurflugvelli í morgun.
Kapellan, sem áður þjónaði Varnarliðsmönnum á Stokksnesi og í ratsjárstöðinni Rockville á Miðnesheiði, var flutt á núverandi stað og endurnýjuð fyrir atbeina slökkviliðsmanna á
Keflavíkurflugvelli og er framlag þeirra og Varnarliðsins til Kristnihátíðar. Prestar Varnarliðsins verða Biskupi Íslands til aðstoðar við vígsluna.

Klukka af gömlum slökkviliðsbíl
Kapella slökkviliðsins á sér merka sögu. Húsið var reist árið 1953 á Stokksnesi við Hornafjörð sem skrifstofa verktakafyrirtækis sem hafði eftirlit með smíði ratsjárstöðvar Varnarliðsins. Er framkvæmdum á Stokksnesi lauk árið 1956 var húsinu breytt í kapellu fyrir liðsmenn
ratsjárstöðvarinnar. Skömmu eftir að stöðin hóf starfsemi kom í ljós að byggingin truflaði ratsjána og réðust starfsmenn og íslenskir verktakar í flytja hana um set. Klukka var engin í fyrstu en slökkvilið Varnarliðsins útvegaði klukku af gömlum slökkviliðsbíl í Bandaríkjunum og er sú klukka í kapellunni enn í dag.

Flutt til Rockville
Íslenskir starfsmenn ratsjárstöðvarinnar gerðu endurbætur á kapellunni árið 1982 og lengdu hana nokkuð í leiðinni. Sex árum síðar leystu starfsmenn Ratsjárstofnunar utanríkisráðuneytisins, liðsmenn Varliðsins af hólmi á Stokksnesi og var þá flestum byggingum stöðvarinnar lokað. Kapellunni var þá fundinn staður í ratsjárstöðinni Rockville á Miðnesheiði, sem enn var mönnuð varnarliðsmönnum, og hún flutt í heilu lagi sjóleiðina til Keflavíkur.

Skemmdarvargar á ferð
Árið 1997 var starfsemin í Rockville lögð niður og urðu mannvirki í stöðinni fljótt skemmdarvörgum að bráð, þ. á m. kapellan. Hugmyndir komu þá upp í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli um að forða húsinu frá frekari skemmdum og gera það upp fyrir liðsmenn þess. Gætu vakthafandi slökkviliðsmenn þá haft aðgang að kapellu á stórhátíðum auk þess sem hún
myndi nýtast til áfallahjálpar eftir stórslys. Jafnframt yrði kapellan öðrum starfsmönnum og varnarliðsmönnum til afnota. Yfirmenn Varnarliðsins og skipulagsyfirvöld tóku vel í málið og var húsið flutt enn einu sinni og nú á lóð slökkviliðsins með góðri hjálp verktakafyrirtækja. Svo skemmtilega vill til að sami starfsmaður eins verktakafyrirtækisins hefur komið að flutningi
hússins í öll skiptin.

Rausnarlegar gjafir
Slökkviliðsmenn tóku til óspilltra málanna við endurbætur á kapellunni í fríum sínum og þegar stundir gáfust á vaktinni. Er verkefnið einkar viðeigandi á þúsund ára afmæli kristni á Íslandi og varnarliðið og íslenskir slökkviliðsmenn þess stoltir af að geta lagt fram sinn skerf til minningar
þeirra tímamóta. Fjölmargir aðrir hafa lagt hönd á plóginn með fjárframlögum, efni og vinnu og kunna slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli öllum bestu. Gylfi Þórðarson slökkviliðsmaður og móðir hans Guðbjörg Benediktsdóttir hafa fært kapellunni rausnarlega gjöf, altari, altarisklæði,
grátur, biblíu, altariskrossi og biblíustand, í minningu bræðra sinna og sona sem báðir létust á árinu. Þess má geta að altari, grátur og biblíustandur eru smíðuð af Gylfa sjálfum.

Rík áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir
Slökkvilið Varnarliðsins er skipað íslenskum starfsmönnum, samtals 128 manns. 90 þeirra annast brunavarnir allra mannvirkja á varnarsvæðunum, að meðtalinni flugstöð Leifs Eiríkssonar, svo og allra flugvéla sem leið eiga um flugvöllinn og 38 starfa í flugþjónustudeild.
Keflavíkurflugvöllur er alþjóðaflugvöllur og eini varaflugvöllur tuga og hundruða flugvéla sem daglega leggja leið sína um þennan heimshluta. Jafnframt er hann varnarstöð og ellefti fjölmennasti þéttbýliskjarni landsins með 600 byggingum og öðrum mannvirkjum sem sum hver eru hin stærstu sinnar tegundar á landinu. Rík áhersla er lögð á öflugt eldvarnaeftirlit og
fyrirbyggjandi aðgerðir með víðtækri notkun fullkomins viðvörunar- og slökkvibúnaðar. Viðbúnaður vegna öryggis- og björgunarþjónustu við herflugvélar sem og aðrar flugvélar, farþega og áhafnir, er einnig viðamikill þáttur í starfseminni.
Að auki sjá starfsmenn slökkviliðsins um hreinsun hættulegra efna, fermingu og affermingu herflutningaflugvéla, afgreiðslu og þjónustu við herflugvélar sem leið eiga um flugvöllinn, rekstur sérstaks öryggisbúnaðar sem stöðvar orrustuþotur í lendingu að ógleymdum hálkuvörnum og snjóruðningi á flugbrautum athafnasvæði flugvéla á Keflavíkurflugvelli sem er um 1,6 milljón fermetrar að stærð.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024