Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kirkjukórarnir í Garði og Sandgerði hættir og organistanum sagt upp
Miðvikudagur 16. nóvember 2011 kl. 12:23

Kirkjukórarnir í Garði og Sandgerði hættir og organistanum sagt upp

Kirkjukórarnir í Sandgerði og í Garði eru hættir og sameiginlegum organista hefur verið sagt upp störfum. Áhugaleysi og peningaleysi er helsta ástæðan. „Við þurfum að endurskoða þennan þátt en það verður áfram sungið með einhverjum hætti,“ segir Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsneskirkju í Sandgerði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Reynir segir að tekjur til kirkjunnar hafi dregist verulega saman og reksturinn verði sífellt erfiðari. Því hafi verið ákveðið að reyna að draga úr kostnaði og kórarnir kallaðir til fundar. Þegar ræða átti þau mál ákváðu kórarnir í Sandgerði og í Garði að segja þetta gott og hætti allt söngfólkið með tölu. Að vísu voru kórfélagar í Sandgerði ekki nema sjö og fimm í Garði. Í framhaldinu var ekki annað í spilunum en að segja organistanum upp en hann verður þó í vinnu næstu þrjá mánuði. Síðasta sunnudag var lífleg fjölskyldumessa í Hvalsnessókn og mættu um hundrað manns. Barnakórar sungu og Reynir segir að vel hafi til tekist. Hann segir að líklega þurfi að hugsa þennan söngþátt upp á nýtt. „Þetta er dýr þáttur í rekstrinum en þó svo greitt hafi verið þjónustuna hefur gengið illa að halda þessu úti. Okkur hefur ekki tekist að laða að ágæta söngmenn úr þessum sveitarfélögum þó svo þeir hafi verið all nokkrir í karla- eða kvennakórum á Suðurnesjum. Bindingin er auðvitað nokkur og það hefur orðið breyting á í okkar samfélagi. Fólk er ekki tilbúið að binda sig og samkomur eru um helgar og á hátíðum. Í gamla daga var sama söngfólkið í áratugi í kirkjukórunum. Kannski er þetta tækifæri fyrir upprennandi tónlistar- og söngfólk á Suðurnesjum að koma að þessu. Það gæti gert þetta gegn sanngjörnu gjaldi,“ sagði Reynir.

Erfiðleikar með kór komu upp í Grindavík fyrir tveimur árum m.a. vegna lækkunar á greiðslum fyrir þjónustuna. Það ástand hefur lagast aftur. Staðan í Keflavíkursókn er þó allt önnur og í rauninni frábær undir stjórn organistans Arnórs Vilbergssonar sem kom til starfa fyrir nokkrum árum. Þar eru um fimmtíu manns í kórstarfinu og þar er hópnum skipt í þrennt og því auðvelt að sinna kórstarfinu, hvort sem er við messur eða jarðarfarir. Að sögn Reynis hefur Ofeus kórinn í Keflavík tekið að sér söng við jarðarfarir og slíkt er algengt á höfuðborgarsvæðinu, að keyptir séu kórar í ákveðnar athafnir.

Þrátt fyrir slæma stöðu er Reynir þokkalega bjartsýnn á að það takist að leysa málin. Kórarnir voru kvaddir með kaffiveislu um síðustu helgi. Boðnir í kaffi og snittur og gamlar og góðar sögur úr starfinu rifjaðar upp. „Við erum ekki hætt að syngja,“ sagði formaðurinn.

Hér er hljómsveitin Klassart úr Sandgerði við tónlistarflutning í Útskálakirkju. Kannski munu systkinin úr Sandgerði eða annað upprennandi tónlistarfólk á Suðurnesjum koma meira að tónlistarflutningi í kirkjunum.