Kínverski sendiherrann heimsækir Reykjanesbæ
Sendiherra Kína á Íslandi, herra Wang Ronghua og fylgdarlið, heimsótti Reykjanesbæ í síðustu viku til að kynna sér menningar- og viðskiptalíf á svæðinu.Ellert Eiríksson tók á móti sendiherranum á skrifstofu sinni og síðan var haldið í ferð um bæinn ásamt fríðu föruneyti. Hópurinn heimsótti m.a. dagvistun aldraðra að Suðurgötu og Smiðjuna við Vesturbraut, sem er handverksverkstæði eldri borgara, og eldri borgarar færðu gestunum síðan fallegar gjafir. Listamaðurinn Sossa var þess heiðurs aðnjótandi að fá Kínverjana í heimsókn á vinnustofu sína en að þeirri heimsókn lokinni var snæddur hádegisverður á Sólsetrinu. Bakkavör er vaxandi fyrirtæki en sendinefndin kom þar við og kynnti sér uppbyggingu fyrirtækisins og framleiðslu. Að lokum var farið í heimsókn í Stekkjarkot.Þess má geta að Hr. Wang hafði mikinn áhuga á að gefa bókasafninu kínverskar bækur og kom með hugmynd um að setja þar upp kínverskt bókahorn. Hann hefur nú þegar fylgt þessu eftir og sent til lista með fjölmörgum bókatitlum sem hann hyggst senda á næstu dögum.