Kids Sound Lab í úrslit á alþjóðlegu BETT ráðstefnunni
- Byggt á hugmyndafræði Lærum og leikum með hljóðin
Smáforritið Kids Sound Lab er eitt sjö smáforrita sem valið hefur verið til úrslita á alþjóðlegu BETT ráðstefnunni sem haldin verður í janúar á næsta ári. Á ráðstefnunni er fjallað um upplýsingatækni í menntun og er hún sú stærsta sinnar tegundar í Bretlandi. Í fyrra sóttu ráðstefnuna yfir 35 þúsund gestir frá yfir 110 þjóðlöndum.
Forritið byggir á sömu aðferðafræði og íslenska smáforritið Lærum og leikum með hljóðin, sem er íslenskt hugvit og aðferð sem Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur hefur þróað í starfi sínu um árabil og gefið út sem þjálfunarefni. Fjölmörg íslensk börn þekkja efnið bæði í bókum, spilum og smáforritum. Bryndís er nú stödd erlendis í markaðs- og kynningarvinnu og segir hún þetta gífurlega mikilvægt innlegg í þá vinnu sem framundan er.
Á vef Nýsköpunarmiðstöðvar kemur fram að það sé talsvert afrek að komast í úrslit hjá svona stórum erlendum aðilum á sviði tækni og menntunar. Þetta gerist á sama tíma og þjóðarátak í læsi standi yfir hér á landi og er gríðarlega mikil viðurkenning á vinnu Bryndísar og samstarfsaðila hennar á sviði menntunar, málþroska og læsis.