KFC opnar um miðjan apríl
KFC er stærsta kjúklingabita veitingahúskeðja í heiminum með meira en 10.000 veitingastaði í 76 löndum. Nú styttist í að Suðurnesjamenn fái að njóta KFC kjúklingabitanna en opnun staðarins hefur dregist töluvert miðað við fyrstu áætlanir. Að sögn Gísla Jóns Gíslasonar verkefnastjóra framkvæmdanna hér í Reykjanesbæ mun staðurinn ekki opna fyrr en í fyrsta lagi í lok næstu viku en þó líklega ekki fyrr en um miðjan apríl. Hann segir marga hluti hafa valdið því að staðurinn hafi ekki opnað á tilsettum tíma enda margir sem koma að málinu og margir hlutir sem þurfa að smella saman. Sömu eigendur eru af sælgætisgerðinni Góa-Lind ehf. og KFC á Íslandi. Þetta er fjölskyldufyrirtæki og eru mörg verkefni sem fyrirtækið stendur í þar sem meðal annars Góa var að flytja í nýtt 600m2 húsnæði og segir Gísli að það hafi dregið smá kraft úr þeim og að þeir hafi ekki náð að sinna KFC í Reykjanesbæ eins vel og þeir hefðu kosið.
Helstu verkefni sem eru eftir á KFC í Reykjanesbæ er almennur frágangur eins og að klára raflagnir, flísalagnir og afgreiðsluborð. Nú er farið að sjá fyrir endann á verkefninu enda Suðurnesjamenn farnir að lengja eftir kjúklingabitunum sínum.
VF-Myndir/Bjarni - Efri: Af KFC húsinu í Keflavík. Neðri: Vinnandi menn í frágangi fyrir opnun KFC í Reykjanesbæ