Keyptu heilsugæslu fyrir fundarhöld
– Bætt fundaraðstaða í sjónmáli hjá Vogamönnum
Á næstunni er gert ráð fyrir að starfsemi heilsugæslunnar í Vogum færist úr Iðndal í Álfagerði. Búið er að útbúa aðstöðu fyrir æknismóttöku þar.
Sveitarfélagið Vogar keypti húsnæði heilsugæslunnar fyrir nokkru, og hyggst nú opna úr húsnæði bæjarskrifstofunnar yfir í heilsugæslurýmið.
„Þá verður loks unnt að útbúa góða fundaraðstöðu fyrir nefndir og bæjarstjórn, sem og fyrir aðra fundi. Einnig verður betri aðstaða fyrir þá sem koma tímabundið og sinna verkefnum á bæjarskrifstofunni, t.a.m. starfsfólk félagsþjónustu, endurskoðendur o.fl.,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, í vikulegu fréttabréfi sínu.