Keypti flugmiða með stolnu greiðslukorti
Flugfarþegi sem kom til landsins í vikunni reyndist hafa notað greiðslukort til farmiðakaupanna sem hafði verið tilkynnt stolið. Honum var meinað að halda ferð sinni áfram með viðkomandi flugfélagi og ræddu lögreglumenn á Suðurnesjum við hann. Þeim tjáði hann að vinur sinn hefði keypt farmiðann fyrir sig.
Maðurinn hugðist síðan halda ferð sinni áfram með öðru flugfélagi en var þá gerð grein fyrir því að hann fengi ekki að bóka far með því. Hann hugðist reyna fyrir sér á fleiri stöðum til að komast á áfangastað. Hann var kærður fyrir fjársvik.