Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kettlingar skildir eftir í garðaúrgangi
Kettlingarnir dvelja nú í góðu yfirlæti í kattaathvarfi og bíða eftir framtíðarheimilum.
Fimmtudagur 30. júní 2016 kl. 06:05

Kettlingar skildir eftir í garðaúrgangi

- Ábending til rannsóknar hjá MAST

Sex kettlingar fundust síðasta laugardag innan um garðaúrgang við Fitjabakka í Reykjanesbæ. Þeir dvelja nú hjá félagi sem annast villiketti þar til ný heimili fyrir þá finnast. Kettlingarnir komu úr tveimur gotum. Þorbjörg Björgvinsdóttir er sjálfboðaliði hjá Villiköttum í Reykjanesbæ og nágrenni og var haft samband þangað þegar kettlingarnir fundust. Hún segir ljóst að eigendur kettlinganna hafi losað sig við þá með þessum hætti. „Kettlingarnir höfðu verið auglýstir gefins á netinu fyrir mánuði síðan svo það var ekki flókið að finna eigendurna,“ segir hún en félagið hefur tilkynnt um málið til Matvælastofnunar. Þorbjörg segir með ólíkindum að fólk komi fram við gæludýr sín með þessum hætti. „Það er í rauninni verið að henda köttum eins og hverju öðru rusli. Það er brýn þörf á vitundarvakningu um tilfinningar dýra. Þegar gæludýr eru skilin eftir á víðavangi er mikil hætta á að þau verði veik,“ segir hún.

Sektir geta orðið háar
Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er ekki heimilt að losa sig við gæludýr út í náttúruna. Verði umráðamaður gæludýra uppvís af því og málið telst upplýst getur Matvælastofnun til dæmis beitt stjórnvaldssektum vegna brotsins. Slíkar sektir geta orðið háar en það fer eftir aðstæðum hverju sinni. Að sögn Konráðs Konráðssonar, héraðsdýralæknis Suðvesturumdæmis, er afar sjaldgæft að Matvælastofnun berist ábendingar um að fólk losi sig við dýr á þennan hátt. Þegar stofnuninni berast ábendingar er réttmæti þeirra kannað og brugðist við þegar í ljós kemur að illa er farið með dýr eða þeim ekki sinnt eins og kveðið er á um samkvæmt lögum um velferð dýra og reglugerðum sem settar eru samkvæmt lögunum. Ábending um kettlingana sem fundust í Reykjanesbæ um síðustu helgi verður rannsökuð af stofnuninni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á myndinni má sjá einn þeirra kettlinga sem fundust yfirgefnir um síðustu helgi. VF-mynd/dagnyhulda


Segir ógrynni villikatta á Suðurnesjum
Félagið Villikettir í Reykjanesbæ og nágrenni á í góðu samstarfi við sams konar félög í Reykjavík og Hafnarfirði og við Kisukot. Þorbjörg segir ógrynni af villiköttum á Suðurnesjum en að sjálfboðaliðar hafi verið virkir og fækkað þeim. Á síðasta ári tóku félögin þrjú í Reykjavík, Hafnarfirði og á Suðurnesjum inn samtals um 150 kettlinga. „Ég er satt best að segja búin að missa töluna á því hve margir þeir hafa verið á Suðurnesjum á þessu ári,“ segir hún. Sjálfboðaliðar gefa villiköttum á sjö stöðum á Suðurnesjum að borða daglega og hafa einnig unnið að því að gelda högna meðal þeirra til að hægja á fjölgun í hópunum. Reynt er að finna heimili fyrir yngstu kettina.