Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kennsluvélar Flugakademíu Íslands í oddaflugi yfir eldgosinu á Reykjanesskaga
Föstudagur 25. júní 2021 kl. 08:37

Kennsluvélar Flugakademíu Íslands í oddaflugi yfir eldgosinu á Reykjanesskaga

Sex kennsluvélar Flugakademíu Íslands flugu á dögunum oddaflug yfir gosstöðvarnar í Geldingadölum en flugið var framkvæmt að beiðni Diamond flugvélaframleiðandans, sem hafa mikinn áhuga á því að nýta myndefnið í markaðs- og kynningarstarfi.

Óhætt er að segja að yfirflug vélanna hafi vakið athygli heimafólks á Suðurnesjunum enda eru oddaflug sem þessi ekki algeng hér á landi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samkvæmt Alexöndru Tómasdóttur, markaðsstjóra Flugakademíu Íslands, var tilgangur flugferðarinnar tvíþættur. „Annars vegar vegna fyrirspurnar Diamond flugvélaframleiðandans um myndatöku af Diamond vélum Flugakademíunnar yfir gosinu og hins vegar til að fagna því að á dögunum útskrifuðust fyrstu atvinnuflugmenn skólans undir nýju heiti Flugakademíunnar.“ Alexandra bætir við að dagurinn hafi verið einstaklega skemmtilegur dagur. „Ég held að óhætt sé að segja að allir þeir sem komu að þessu verkefni og urðu vitni af fluginu hafi haft gaman af.“

Bjartir tímar framundan í fluginu

Þess má geta að til þess að oddaflug sé framkvæmt af öryggi þarf að huga að fjölmörgum atriðum, flugmenn þurfa að vera einstaklega vel samstilltir og flugið skipulagt í þaula. Kári Kárason, forstöðumaður Flugakademíu Íslands, og Davíð Brár Unnarsson, skólastjóri Flugakademíunnar, flugu fremstu vélunum og stýrðu fluginu.

„Þetta gekk mjög vel, fylkingarflug krefst undirbúnings og þjálfunar og nýttum við tækifærið til að æfa þetta vel. Okkar reynslumestu flugkennarar fengu þetta verkefni og leystu það mjög vel af hendi,“ sagði Kári Kárason að loknu fluginu. „Það er alltaf gaman að taka þátt í svona öðruvísi flugverkefnum og vonandi getum við gert meira af þessu á flughátíðum og flugsýningum. Það eru þrátt fyrir allt bjartir tímar framundan í fluginu, flugfélög farin að ráða flugmenn aftur og við finnum fyrir auknum áhuga á flugnámi sem eru frábærar fréttir.“

Kennsluvélarnar merktar með nýju merki Flugakademíu Íslands

Eftir sameiningarferli Flugakademíu Keilis og Flugskóla Íslands á síðasta ári hafa skólarnir nú sameinast undir nafni og merkjum Flugakademíu Íslands, sem er fyrir vikið einn af stærstu og öflugustu skólum Norðurlandanna.

Kennsluvélarnar sem tóku þátt í oddafluginu yfir Geldingadölum eru allar merktar nýju merki Flugakademíu Íslands en H:N Markaðssamskipti höfðu umsjón með gerð nýs hönnunarstaðals skólans.
Ljósmyndari flugsins var Þráinn Kolbeinsson, sem hefur meðal annars farið mikinn í myndatökum á Reykjanesinu að undanförnu.

Opið er fyrir umsóknir í einka- og atvinnuflug Flugakademíu Íslands til 30. júlí og geta áhugasamir umsækjendur mætt á kynningardag í verklegri aðstöðu skólans á Reykjavíkurflugvelli 24. júní næstkomandi til að kynna sér námið.