Kennslustofan komst loks til Voga
Náttúruhamfarir töfðu flutninginn frá Hvolsvelli sem var 45 milljónum kr. ódýrari
Færanleg kennslustofa sem Sveitarfélagið Vogar hefur fest kaup á var flutt frá Hvolsvelli í Voga í síðustu viku. Síðustu vikur og mánuði hefur ýmislegt gengið á sem hefur tafið flutning stofunnar sem taka á í notkun á vordögum og mun hýsa nýja leikskóladeild við Heilsuleikskólann Suðurvelli.
Til stóð að flytja húsið frá Hvolsvelli í upphafi nýs árs en náttúruhamfarirnar á Reykjanesi og slæm veðurskilyrði hafa tafið verkefnið. Til stóð að flytja húsið, sem er um 85 fermetrar að stærð og 20 tonn að þyngd, um Suðurstrandaveg en í kjölfar atburðanna í Svartsengi og við Grindavík varð ekkert úr þeim fyrirætlunum. Vegna þungatakmarkana á Krýsuvíkurvegi reyndist heldur ekki mögulegt að fara þá leið og hefur því ríkt talsverð óvissa um hvort og þá hvenær hægt yrði að flytja kennslustofuna og taka hana í notkun.
Með aðstoð Almannavarna fékkst þó loks undanþága frá Samgöngustofu fyrir flutningi kennslustofunnar í gegnum Grindavík og fór flutningurinn fram í síðustu viku. Að sögn þeirra sem komu að verkinu gekk það að mestu leyti greiðlega fyrir sig en verktakafyrirtækið JÁ verk sá um flutninginn fyrir sveitarfélagið.
Á þriðjudaginn í síðustu viku var húsið síðan híft á sökklana við hlið heilsuleikskólans Suðurvalla og vinna við frágang og lagnatengingar hófst í kjölfarið. Það styttist því í að leikskólinn fái húsnæðið afhent þegar vinnu við innréttingar og breytingar á húsnæðinu í samræmi við þarfir leikskólans er lokið.
Í fjárhagsáætlun 2024 nemur fjárfesting vegna færanlegrar kennslustofu við Heilsuleikskólann Suðurvelli 80 milljónum króna. Endurmetinn kostnaður vegna verkefnisins nemur nú 35 milljónum króna og því er áætlað að handbært fé bæjarins styrkist um 45 milljónir króna, segir í gögnum frá síðasta fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga.